Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   þri 23. mars 2021 08:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Györ, Ungverjaland
Axel: Hér snýst þetta ekki bara um að vinna, það á að vinna stórt
Ég fer inn í hvern einasta leik með mikið sjálfstraust
Ég fer inn í hvern einasta leik með mikið sjálfstraust
Mynd: Riga
Munurinn á þessu og frá því í Noregi er sá að ég fékk ekki þetta tækifæri sem ég er að fá hér
Munurinn á þessu og frá því í Noregi er sá að ég fékk ekki þetta tækifæri sem ég er að fá hér
Mynd: Viking
Ég finn að það er búist við miklu af mér og væntingarnar eru himinháar.
Ég finn að það er búist við miklu af mér og væntingarnar eru himinháar.
Mynd: Riga
Það var ekki gefið á mann í hornum og maður var ekki maðurinn sem miðað var á og fékk færin.
Það var ekki gefið á mann í hornum og maður var ekki maðurinn sem miðað var á og fékk færin.
Mynd: Viking
Á sama tíma í Noregi var bara einn sjúkraþjálfari.
Á sama tíma í Noregi var bara einn sjúkraþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markmiðið hjá Riga er að komast langt í forkeppni Meistaradeildarinnar
Markmiðið hjá Riga er að komast langt í forkeppni Meistaradeildarinnar
Mynd: Riga
Ísak er ógeðslega flottur með það að nenna leiðinlegu hlutunum
Ísak er ógeðslega flottur með það að nenna leiðinlegu hlutunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ef við horfum á okkar mann Ísak og rauðrófuna þá eru það þessir litlu hlutir sem koma mönnum lengra."

Axel Óskar Andrésson gekk í raðir Riga FC í Lettlandi frá norska félaginu Viking í Stavanger fyrr á þessu ári. Axel er 23 ára varnarmaður sem uppalinn er hjá Aftureldingu en hélt ungur að árum til Reading á Englandi.

Axel á að baki átján U21 landsleiki en er ekki í hópnum fyrir lokakeppni EM sem nú er kominn saman í Ungverjalandi. Axel svaraði spurningum um valið í fyrri hluta viðtalsins en hér að neðan má sjá svör hans við spurningum um Lettland. Axel hefur byrjað mjög vel og var í liði vikunnar bæði eftir fyrstu og aðra umferðina.

Axel um U21:
„Gæti alveg verið í einhverju niðurbroti en kýs að vera ekki í einhverri fýlu"

Fréttaritari ræddi við Axel fyrir um mánuði síðan þegar nýbúið var að tilkynna um skiptin, lesa má það viðtal hér:

„Er ævintýrakall og elska að prófa nýja staði"

Hvernig hefur fyrsti mánuðirinn verið hjá félaginu?

„Þetta er að koma mér virkilega á óvart og ég er drullusáttur með þetta. Það er toppæfingaaðstaða hér og mikill hugur í forseta félagsins. Núna er verkefni í gangi, það á að byggja 50 milljón evra æfingasvæði sem á að vera tilbúið eftir ár. Sami hönnuður hannar það og hannaði æfingasvæði Tottenham."

„Æfingasvæðið sem er hérna núna er mjög flott og allt til alls, kom mér þægilega á óvart hvað allt er fagmannlegt.“


Er hægt að bera þetta saman við aðstöðuna hjá Viking?

„Riga spilar á þjóðarleikvangi Lettlands þar sem grasið er í hæsta gæðaflokki. Leikvangurinn sem slíkur er hins vegar ekkert magnaður. Fótboltasagan er meiri í Noregi og leikvangarnir flottari. Núna er veðrið hér eins og á Íslandi, kalt og við spilum á gervigrösum félaganna. Við færum okkur á grasvelli þegar fer að hlýna.“

Það er áhugaverð pæling, gæti kannski verið ákveðin lausn á Íslandi ef lengja ætti mótið.

„Algjörlega, allir gervigrasvellirnir sem ég hef séð á Íslandi eru betri en þeir sem eru hér og þetta kerfi virkar hér. Íslensku félögin þyrftu að horfa í þessa leið að mínu mati. Ofan á það eru þessar flottu hallir á Íslandi sem eru ekki hér.“

Þú varst í liði umferðarinnar í fyrstu umferð og skoraðir mark. Svo varstu aftur í liði umferðarinnar um helgina. Verður þetta svona í öllum umferðum tímabilsins?

„Haha, nei en það væri geggjað ef það væri svoleiðis. Ég fer inn í hvern einasta leik með mikið sjálfstraust. Ég skoraði í mínum fyrsta æfingaleik með liðinu og það gaf mér sjálfstraust inn í mótið. Ég skoraði svo í fyrsta deildarleik og kem með sjálfstraust inn í næsta leik."

„Þetta er búið að vera mjög gott. Munurinn á þessu og frá því í Noregi er sá að ég fékk ekki þetta tækifæri sem ég er að fá hér. Það var ekki gefið á mann í hornum og maður var ekki maðurinn sem miðað var á og fékk færin. Hér er mér treyst fyrir því.“

„Ég finn að það er búist við miklu af mér og væntingarnar eru himinháar. Það kemur ekkert annað til greina að vinna deildina og það er ástæðan fyrir því að félagið hefur unnið deildina þrjú ár í röð.“


Eru menn á þeirri línu að fara taplaust í gegnum tímabilið?

„Já já, algjörlega. Hér snýst þetta ekki bara um að vinna, það á að vinna stórt. Riga er að setja mesta peninginn í hlutina af liðunum hér og uppsker eftir því.“

Hefur eitthvað í lífinu í Lettlandi þennan fyrsta mánuð komið þér á óvart?

„Ég flutti hingað með kærustunni og þú finnur strax að það er mikill munur á að búa hér miðað við í Noregi. Við vissum ekki hvort hún kæmist inn í landið út af covid. Það var ákveðið stress og við þurftum að fljúga henni til okkar í Dúbaí [Riga var þar í æfingaferð] svo hún yrði á listanum með okkur til að vonandi komast inn í landið. Það tókst og við búum saman í íbúð í miðbæ Riga."

„Reglurnar eru harðar en fólk tekur þeim ekki næstum því eins alvarlega ef við miðum við Ísland og Noreg. Hér nánast drekka menn nánast úr sama brúsa og handabönd eru algeng.“

„Fótboltalega eru þetta svipaðar áherslur, mikið æft og góðar aðstæður. Mér finnst vera betri aðstæður heldur en ég var vanur í Noregi, hlutirnir á hreinu varðandi mat leikmanna og allir vítamín pakkar sem til eru standa til boða, allt í toppmálum í slíku.“

„Ef við horfum á okkar mann Ísak [Bergmann Jóhannesson] og rauðrófuna þá eru það þessir litlu hlutir sem koma mönnum lengra. Mennirnir sem nenna að hugsa um þetta komast lengra. Ísak er ógeðslega flottur með það að nenna leiðinlegu hlutunum."

„Hér er maður líka fitumældur miklu oftar og betur haldið utan um formið, sem minnir mann á hlutina eins og þeir voru á Englandi. Hjá Riga eru nánast fleiri þjálfarar heldur en leikmenn á æfignum og þegar við förum í ræktinni eru sjö þjálfarar með augu á hlutunum í ræktinni. Á sama tíma í Noregi var bara einn sjúkraþjálfari.“


Hvert er helsta markmið Riga á tímabilinu?

„Mesta einbeitingin er á Evrópukeppnirnar í sumar og núna er Conference League komið inn sem þriðji kostur. Markmiðið hjá Riga er að komast langt í forkeppni Meistaradeildarinnar og svo er Evrópudeildin og Conference ef það gengur ekki. Það verða nóg af leikjum ef við stöndum okkur vel og þetta er frábær gluggi," sagði Axel.

Riga FC hefur unnið lettnesku deildina undanfarin ár, liðið er í toppsætinu eftir tvær umferðir og næstu leikir eru eftir landsleikjahlé.
Athugasemdir
banner