banner
   þri 23. apríl 2019 17:15
Arnar Daði Arnarsson
Óskar Hrafn: Ungt og lítið breytt lið sem borgar ekki krónu í laun
Inkasso spá þjálfara og fyrirliða: 9. sæti Grótta
Óskar Hrafn þjálfari Gróttu.
Óskar Hrafn þjálfari Gróttu.
Mynd: Hulda Margrét
Grótta er spáð 9. sæti í Inkasso deildinni í spá þjálfara og fyrirliða deildarinnar. Grótta er nýliði í deildinni eftir að hafa endað í 2. sæti í 2. deildinni í fyrra.

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Gróttu segir að spáin komi honum á óvart.

„Grótta hefur aldrei lent ofar en í 10. sæti í 1. deild. Þetta væri þá besti árangur í sögu félagsins sem væri einstakt afrek fyrir þennan unga hóp sem við erum með," sagði Óskar Hrafn sem segir markmið liðsins vera að festa sig í sessi í Inkasso-deildinni.

Litlar breytingar hafa orðið á Gróttu frá því í fyrra. „Við höfum fengið tvo mjög öfluga leikmenn, Axel Sigurðarson og Bjarka Leósson, á láni frá KR en einnig misst sterka leikmenn í Ásgrími Gunnarssyni og Sindra Má Friðrikssyni sem báðir eru hættir. Ég held að við höfum náð að nýta veturinn vel og bæta okkur sem lið."

„Undirbúningstímabilið hefur gengið upp og ofan eins og við er að búast með ungt lið. Ég held að við séum nokkurn veginn þar sem við viljum vera, bæði hvað varðar liðstakt, form og móral," sagði Óskar Hrafn sem býst ekki við því að Grótta bæti við sig leikmönnum áður en deildin fer af stað.

Óskar er spenntur fyrir komandi sumri og segir það vera spurningu sem svarað verður í haust hvort að Grótta sé tilbúið að taka það skref að festa sig í sessi í Inkasso-deildinni en liðið hefur átt í vandræðum með halda sér uppi í deildinni þegar liðið hefur spilað í henni.

„Við erum með ungt og lítið breytt lið sem borgar ekki krónu í laun. Leikmenn og þjálfarar liðsins þurfa að vera allra besta útgáfan af sjálfum sér í allt sumar til að það takist. Inkasso-deildin verður gríðarlega sterk í sumar. Ég hef séð flest liðin spila og við höfum spilað á móti þeim nokkrum. Liðin eru vel skipulögð og sum hver með betri byrjunarlið heldur en nokkur Pepsi-deildarlið. Þannig að ég á von á 22 erfiðum leikjum," sagði Óskar Hrafn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner