Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 23. apríl 2020 12:29
Elvar Geir Magnússon
KÞÍ: Óviðunandi starfsumhverfi þjálfara á Íslandi
Mynd: Getty Images
Mynd: Merki
Mynd: Getty Images
Fótboltaþjálfarar á Íslandi standa höllum fæti gagnvart mörgum öðrum starfsstéttum. Þetta er mat Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands, KÞÍ.

Í yfirlýsingu sem KÞÍ sendi frá sér í dag er fjallað um stöðu þjálfara í Covid-19 faraldrinum. Sagt er að dæmi séu um að „þjálfurum hafi verið gefnir afarkostir, annaðhvort samþykki þeir einhliða skerðingu eða þurfi að sæta uppsögn án greiðslu á uppsagnarfresti".

YFIRLÝSING KÞÍ:

Til þeirra sem málið varðar!

Að gefnu tilefni vill stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands (KÞÍ) koma eftirfarandi á framfæri.

Nú um stundir stendur knattspyrnuhreyfingin frammi fyrir miklum vanda vegna COVID-19. Sá vandi er víðtækur, snertir marga og er ekki síst fjárhagslegur. Innan hreyfingarinnar hefur m.a. verið reynt að vinna að lausnum með samráði vinnuhóps á vegum KSÍ þar sem horft hefur verið á vandann með heildstæðum og þverfaglegum hætti. Í þeim vinnuhópi situr m.a. fulltrúi KÞÍ og hefur staða knattspyrnuþjálfara m.a. verið þar til skoðunar.

Stjórn KÞÍ hefur á undanförnum vikum vakið athygli á stöðunni og hvatt þjálfara til þess að sýna viðsemjendum sínum, íþróttafélögum, tillitssemi og sanngirni við þessar aðstæður. Að sama skapi hefur stjórn KÞÍ hvatt íþróttafélög til þess að sýna þjálfurum tillitssemi, virða gildandi og tvíhliða samningssamband við þjálfara og stíga varlega til jarðar við einhliða ákvörðunartöku um breytingu á kjörum þjálfara. Slík ákvörðunartaka getur falið í sér uppsögn á gildandi samningi eða hluta samnings og réttur þjálfara í þeim efnum getur verið ótvíræður, t.d. við uppgjör á eldri samningi. Gildir það þrátt fyrir að sérstakar aðstæður séu uppi vegna atvika sem mögulega teljast til óvæntra eða óviðráðanlegra atvika (force majeure) sem kunna að hafa áhrif á efndir samnings.

Tekið skal fram að það er mat stjórnar KÞÍ að við þessar aðstæður er e.t.v. ekki óeðlilegt eða ósanngjarnt að þjálfarar þurfi að koma á móts við íþróttafélög og gangast við kjaraskerðingu, einkum til skemmri tíma. Það fæst aftur á móti vart staðist að það sé íþróttafélaga að ákveða upp á sitt eindæmi að þær aðstæður séu fyrir hendi. Öðru fremur þarf íþróttafélag að lágmarki að útskýra það og rökstyðja á grundvelli breyttra rekstrarforsendna og fjárhags og þjálfara svo að gangast við slíku. Komi upp ágreiningur er það að endingu dómstóla að skera úr um hvort framangreindar aðstæður séu fyrir hendi. Það er þó mat stjórnar KÞÍ að hagfelldast sé að knattspyrnuhreyfingin komi sér saman um hvað sé hreyfingunni fyrir bestu og hvernig tryggja eigi að allir „vinni“.

Fyrir skemmstu stóð stjórn KÞÍ fyrir könnun meðal knattspyrnuþjálfara á ýmsu er tengist áhrifum COVID-19. Tæplega 200 knattspyrnuþjálfarar tóku þátt í könnuninni en viðlíka könnun hefur ekki verið gerð áður, svo vitað sé. Niðurstöður hafa verið birtar. Eðli máls samkvæmt tók könnunin til ýmissa atriða er tengjast starfsumhverfi knattspyrnuþjálfara og varða ekki áhrif COVID-19, s.s. starfssambands og í hvaða formi þjálfarar fá greitt fyrir störf sín. Horfa þarf á niðurstöður könnunarinnar með heildstæðum hætti, þ.á m. því að það kann að hafa þýðingu fyrir rétt knattspyrnuþjálfara til þess að nýta sér úrræði stjórnvalda (Vinnumálastofnunar) hvernig launagreiðslum til hans er háttað, þ.e. hvort um ræðir greiðslur í peningum eða í annars konar formi. Það er mat stjórnar KÞÍ að brýnt sé við þessar aðstæður að slík atriði séu dregin upp á yfirborðið, „afhjúpuð“ og birt.

Niðurstöður könnunarinnar eru öðru fremur upplýsandi um starfsumhverfi knattspyrnuþjálfara og stöðu þeirra. Þar koma m.a. fram sterkar vísbendingar um að yfirgnæfandi meiri hluti þjálfara hafi tekið á sig eða sjái fram á að taka á sig launalækkun vegna ástandsins. Af þeim er í rúmlega helmingi tilvika um einhliða ákvörðun íþróttafélags að ræða. Virðist ekki skipta máli hvort um sé að ræða yngri flokka þjálfara eða meistaraflokksþjálfara. Óháð niðurstöðum könnunarinnar hefur stjórn KÞÍ upplýsingar um að íþróttafélög hafi tekið einhliða ákvörðun um að skerða laun allra þjálfara um sömu prósentutölu, óháð íþróttagrein. Þá virðast vera dæmi um að þjálfurum hafi verið gefnir afarkostir, annaðhvort samþykki þeir einhliða skerðingu eða þurfi að sæta uppsögn án greiðslu á uppsagnarfresti. Þessar upplýsingar þarf að hafa til hliðsjónar niðurstöðum könnunarinnar við mat á stöðu knattspyrnuþjálfara. Einnig þarf að horfa til þess að þrátt fyrir harða tíma virðast knattspyrnuþjálfarar vera ánægðir í starfi, hvergi hefur verið slegið af fagmennsku og þeir leggja sig fram um að leita leiða til þess að sinna iðkendum á fjölbreyttan hátt og með nýjum nálgunum. Það er aftur á móti mat stjórnar KÞÍ að þessi framkvæmd gagnvart þjálfurum sé óviðunandi og sé ekki til þess fallin að mynda traust eða hafi að markmiði að miðla málum, sýna samstöðu og skapa sátt.

Knattspyrnuhreyfingin ræður málefnum sínum sjálf og hvernig hún hagar sinni uppbyggingu. Við ríkjandi skipulag er formfesta mikil á tilteknum sviðum en á öðrum lítil sem engin. Staða þjálfara er eitt það svið þar sem formfesta er af skornum skammti og afskiptaleysi í öndvegi, t.d. um það hvernig þjálfarar semja, hvort þeir eru verktakar eða launamenn (yfirgnæfandi meiri hluti þjálfara eru verktakar) og hvernig þeir leysa úr ágreiningsmálum við íþróttafélag. Af þessum sökum er gagnsæi lítið, staða þjálfara ótrygg og þjálfarar ráða í reynd ekki starfssambandi sínu.

Stjórn KÞÍ hefur á undangengnum árum bent á ýmsa veikleika er þessu tengjast um stöðu knattspyrnuþjálfara og hvernig þeir standa höllum fæti gagnvart mörgum öðrum starfsstéttum sem njóta viðurkenningar og réttarverndar og meiri formfesta ríkir. Nánar tiltekið hefur stjórn KÞÍ hvatt forystu knattspyrnuhreyfingarinnar til þess að beita sér fyrir úrbótum á stöðu þjálfara, t.d. með innleiðingu staðalsamnings (ráðningarsamnings) og að íþróttahreyfingunni verði heimilað að leysa úr ágreiningsmálum þjálfara og íþróttafélaga með ígildi gerðardóms þannig að þjálfari þurfi ekki að leita til íslenskra dómstóla til að skera úr ágreiningi, komi hann upp. Þá hefur stjórn KÞÍ talað fyrir því að tekið sé upp gæða- og eftirlitskerfi með knattspyrnuþjálfurum landsins en eins og staðan er í dag er skortur á skráningu, verkferlum og eftirliti með þjálfurum og t.a.m. liggja engar haldbærar upplýsingar fyrir um fjölda knattspyrnuþjálfara, aldursdreifingu, kynjahlutafall, starfshlutfall, starfssamband, hlutfall sjálfboðaliða, starfsánægju, starfstíma, endurnýjun innan stéttarinnar, tíðni veikinda eða tíðni vinnuslysa, svo fátt eitt sé nefnt. Loks eru erlendir þjálfarar sérstakt áhyggjuefni þar sem dæmi eru um að gerðir séu samningar á íslensku við erlenda þjálfara sem hvorki tala né skilja íslensku.

Knattspyrnuhreyfingin hefur tekið dræmt í hugmyndir stjórnar KÞÍ en þó má segja að ákveðin þáttaskil hafi orðið á síðasta ársþingi KSÍ þar sem tillaga stjórnar KSÍ um staðalsamning var lögð fram. Sú tillaga hlaut ekki samþykki aðalfundar en fékk þó framgang og var málinu vísað til nefndar til frekari úrlausnar. Er það vel, en betur má ef duga skal.

Það er mat stjórnar KÞÍ að stétt knattspyrnuþjálfara sé sérstaklega viðkvæm fyrir því ástandi sem nú ríkir vegna þeirra veikleika sem eru í starfsumhverfi þeirra. Allmargir þjálfarar hafa leitað til stjórnar KÞÍ og lýst áhyggjum sínum af veikri stöðu og „réttleysi“ en vilja ekki koma fram undir nafni af ótta við það að missa starfið. Við þetta bætist skortur á upplýsingaflæði til knattspyrnuhreyfingarinnar um hvernig taka eigi á málum og glíma við þann vanda sem við blasir. Það verður ekki gert með þögn heldur með samtali, af raunsæi og öðru fremur gagnsæi þar sem allt er uppi á borðum.

Stjórn KÞÍ kallar eftir forystu við þessar aðstæður og samráði um hvert skuli stefnt og hvaða leiðir séu færar. Þá kallar stjórn KÞÍ eftir því að knattspyrnuhreyfingin brjóti odd af oflæti sínu og beiti sér fyrir breytingum á starfsumhverfi þjálfara og/eða lýsi yfir slíkum vilja. Við núverandi ástand verður ekki unað!

Reykjavík, 23. apríl 2020,
Stjórn KÞÍ
Athugasemdir
banner
banner
banner