fim 23. apríl 2020 13:01
Elvar Geir Magnússon
Svartsýnn á að enski boltinn fari aftur af stað á þessu ári
Gary Neville.
Gary Neville.
Mynd: Getty Images
Gary Neville telur að það sé ólíklegt að enski boltinn geti farið aftur af stað fyrr en á næsta ári.

Þessi fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi sparkspekingur Sky Sports telur að ekki verði hægt að ábyrgjast öryggi leikmanna vegna skorts á sýnatökubúnaði.

Þá segir hann að ekki sé hægt að spila fótbolta í samræmi við nýjustu öryggisreglur frá yfirvöldum. Talað er um að halda þurfi fjarlægð frá næsta manni út þetta ár að minnsta kosti.

„Umræðan í kringum fótboltann er ekki í nokkru samræmi við það sem yfirvöld segja. Ég átti fundi á hótelum þar sem okkur var sagt að við þyrftum að vera í tveggja metra fjarlægð frá hvor öðrum. Helmingi færri komast að á veitingastöðum og fólk sem afgreiðir matinn þarf að vera með hanska og hlífðargrímu til að hindra útbreiðsluna," segir Neville.

„Svo ferðu á fund um fótboltann seinna um daginn og þar er talað um að leikmenn eigi að fara að keppa aftur og fara í skallaeinvígi eins og ekkert sé."

„Í dag er ég mjög efins um að fótboltinn snúi aftur á næstunni," segir Neville.

„Atvinnurekandi getur ekki sett heilsu og öryggi starfsmanna í hættu. Sem eigandi Salford City þá er ég með leikmenn með sykursýki, ég er með leikmenn með astma. Er ég að fara að senda þá út á völl og tefla heilsu þeirra í hættu vegna fótbolta? Svarið er einfaldlega nei."

„Það er ekki fræðilegur möguleiki að enska úrvalsdeildin geti réttlætt fyrir þjóðinni að hún fái aðgang að tugum þúsunda af sýnatökubúnaði þegar framlínufólk fær það ekki."
Athugasemdir
banner
banner
banner