Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fös 23. apríl 2021 10:14
Elvar Geir Magnússon
Rúnar Páll: Er með hóp sem getur barist um titla
Rúnar Páll Sigmundsson ræðir við Hilmar Árna Halldórsson.
Rúnar Páll Sigmundsson ræðir við Hilmar Árna Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er vika í að Pepsi Max-deild karla rúlla af stað en Fótbolti.net hefur í vikunni verið að opinbera spá sína fyrir deildina. Seinna í dag verður fjallað um Stjörnuna en Garðabæjarliðinu er spáð 6. sæti.

„Þetta er ekki óvænt spá. Er þetta ekki alltaf sama bíóið hjá ykkur snillingunum? Okkur er alltaf spáð 5. - 6. sæti í þessu ef mig minnir rétt. Er þetta ekki bara ágætis spá fyrir sumarið?" segir Rúnar Páll Sigmundsson en það var létt yfir honum þegar Fótbolti.net heyrði í honum hljóðið í morgun.

„Markmið okkar er alltaf það sama, það er að berjast um þessa titla. Það er ekki flóknara en það. Það hefur alltaf verið markmiðið síðan ég byrjaði hjá Stjörnunni. Það hefur ekkert breyst þó ykkar spá sé eitthvað skrítin."

Telur Rúnar að hann sé með hópinn í að berjast um titla?

„Já við erum með frábæran hóp og frábært lið. Það skiptir máli að byrja þetta mót vel eftir þetta stopp sem hefur verið núna, koma okkur inn í þetta. Við erum með gott lið, góðan hóp, góða umgjörð og það er vel hugsað um okkur," segir Rúnar.

Tveir erlendir leikmenn hafa gengið í raðir Stjörnunnar fyrir komandi tímabil, það eru Magnus Anbo sem kom frá AGF á láni og enski bakvörðurinn Oscar Borg sem var í unglingastarfi West Ham. Hver er ástæðan fyrir því að Stjarnan leitaði út fyrir landsteinana að liðsstyrk?

„Okkur bauðst að fá þessa leikmenn og það er erfitt að fá menn. Við höfum misst marga leikmenn úr okkar hóp, menn hafa hætt knattspyrnuiðkun og Gaui (Guðjón Baldvinsson) fór í KR. Við erum með mjög ungan hóp og þessir nýju gaurar eru heldur ekki gamlir. Okkur bauðst frá AGF að fá Magnus inn og Oscar kemur inn sem kostur í bakvörðinn því við vissum ekki hvernig þróunin yrði á meiðslum Þórarins Inga. Við þurftum að hafa varaplan þar líka," segir Rúnar.

Rúm vika er í fyrsta leik Stjörnunnar en liðið mætir nýliðum Leiknis laugardaginn 1. maí.

„Þetta er alltaf jafn spennandi tími, þegar mótið er að byrja. Það er mikill fiðringur í mönnum og mikilvægt að fara vel af stað."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner