banner
   fös 23. apríl 2021 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Spá sem við ætlum okkur að afsanna, það er klárt mál"
Lengjudeildin
Guðlaugur Baldursson.
Guðlaugur Baldursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þrótturum er spáð 11. sæti Lengjudeildarinnar.
Þrótturum er spáð 11. sæti Lengjudeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á hliðarlínunni.
Á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr æfingaleik á undirbúningstímabilinu.
Úr æfingaleik á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Laugi og Sam Hewson.
Laugi og Sam Hewson.
Mynd: Þróttur
„Fyrstu mánuðirnir hafa verið mjög góðir fyrir utan þessi stopp. Hópurinn er flottur, það er vel staðið að hlutum og menn eru metnaðargjarnir," segir Guðlaugur Baldursson, þjálfari Þróttar í Reykjavík, í samtali við Fótbolta.net.

Þrótturum er spáð 11. sæti Lengjudeildarinnar í sumar.

„Við erum samstíga í því að leggja eins mikið í þetta og hægt er," segir Guðlaugur.

Orðinn aðalþjálfari á nýjan leik
Guðlaugur gerði fjögurra ára samning við Þrótt. Hann er afar reynslumikill þjálfari, hann hóf þjálfaraferil sinn í meistaraflokki í Vestmannaeyjum er hann tók við efstu deildar liði ÍBV að loknu keppnistímabilinu 2004. Hann hefur á ferli sínum þjálfað, ÍBV, lið ÍR og Keflavíkur bæði í efstu og næst efstu deild og nú síðast var hann í þjálfarateymi FH sem endaði í öðru sæti Pepsi Max deildarinnar á nýliðnu keppnistímabili.

Hann var jafnframt aðstoðarþjálfari Heimis Guðjónssonar hjá FH á árunum 2012-2016 þar sem hann fagnaði þremur Íslandsmeistaratitlum á fimm árum.

Núna er hann orðinn aðalþjálfari aftur en það var síðast 2018 þegar hann stýrði Keflavík.

„Ég kann mjög vel við hvort tveggja, að vera aðstoðarþjálfari og aðalþjálfari. Þetta er orðið þannig í dag að þetta er mikil samvinna á milli þjálfara. Þó að vissulega sé ábyrgð aðalþjálfarans meiri. Ég kann mjög vel við það, mér finnst gaman að fá að stjórna og ráða hlutunum."

Sloppið með naumindum
Það hafa verið vandræði á Þrótturum undanfarin tvö tímabil og þeir hafa sogast niður í mikla fallbaráttu. Þróttur hefur haldið sér með naumindum í Lengjudeildinni.

„Mér líst engan veginn á það," sagði Guðlaugur þegar hann var látinn vita að Þrótturum hefði verið spáð 11. sæti fyrir sumarið. „Við ætlum okkur meiri hluti en það, klárlega. Síðustu tvö ár hefur Þróttur endað í tíunda sæti og við viljum gera betur en það. Þetta er spá sem við ætlum okkur að afsanna, það er klárt mál."

„Það eru margar leiðir að sama markmiði. Það er fullt af þáttum sem við getum lagað og getum bætt. Við erum í þeirri vinnu. Við viljum blanda saman ungum og eldri leikmönnum til að geta búið til góða liðsheild, spennandi og gott lið. Við erum ekki að eyða mestum peningum í deildinni og verðum að finna aðra hluti. Við erum að búa til góða heild og viljum hafa liðið í góðu formi."

Möguleikar í spilamennsku
Þróttur skoraði minnst af öllum liðum Lengjudeildarinnar í fyrra; aðeins 15 mörk í 20 leikjum. Hvernig fótbolta vill Guðlaugur að liðið sitt spili?

„Ég vil halda í boltann, ég vil geta sótt hratt en ég vil líka geta haldið boltanum. Ég vil geta farið með liðið ofarlega á völlinn til að geta unnið boltann á síðasta þriðjungnum. Við gerum okkur líka grein fyrir því að í einhverjum tilfellum þurfum við að liggja til baka. Þá vill maður vera með þéttleika og leiðtoga innan liðsins sem geta hjálpað okkur að skipuleggja varnarleik sem erfitt er að brjóta niður."

Þróttur lenti í neðsta sæti í sínum riðli í Lengjubikarnum með einn sigur úr fimm leikjum. Sigurinn kom gegn Fjölni. Þegar hann var spurður að því hvernig undirbúningstímabilið hafði gengið sagði þjálfarinn:

„Það hefur gengið mjög vel, en þetta síðasta stopp kom mjög illa við okkur. Okkur fannst við vera komnir á góðan stað. Við höfðum farið í marga þætti og vorum farnir að þróa það, bæði sóknarlega og varnarlega. Það setur mann aðeins á 'hold' en núna erum við að reyna að vinna þann tíma til baka svo við verðum klárir í fyrsta leik 6. maí."

„Menn eru klárir og vilja mikið og svoleiðis, en líkamlega er erfitt að koma til baka úr svona stoppi. Það eru ekki margir dagar frá því við fengum að æfa aftur á fullu og erum að fara að spila strax leik. Maður er aðeins hræddari um að fá vöðvatognarnir og annað slíkt þegar maður dettur strax inn í leik."

Sam Hewson aðstoðarþjálfari
Sam Hewson var ráðinn sem spilandi aðstoðarþjálfari Þróttar undir lok síðasta árs. Sam er vel þekktur á Íslandi þar sem hann hefur spilað fyrir Fram, FH, Grindavík og Fylki síðustu níu ár. Sam er fæddur 1988 og á að baki farsælan feril í efstu deild íslenska boltans.

„Hann kemur með atvinnumannahugsun, með mikil gæði og hefur góða þekkingu á leiknum. Við þekkjumst vel frá okkar tíma úr FH. Hann hefur nýst vel. Við erum líka með Jens Sævarsson í teyminu sem er Þróttari og hefur þjálfað heilmikið. Hann er gríðarlega mikilvægur í okkar teymi líka."

Sam er uppalinn hjá Manchester United. „Hann er afskaplega hlédrægur en það er spurning hvort við náum að draga upp úr honum einhverjar skemmtilegar sögur við tækifæri," sagði Laugi léttur.

Þjálfari Þróttar telur það ólíklegt að það bætist við leikmannahópinn á næstu dögum en ef eitthvað komi upp, þá verði það skoðað.

„Við erum búnir að búa til samkeppni í langflestum stöðum og ég er ánægður með þá leikmenn sem við höfum. Við erum að reyna að styrkja liðið innan frá. Við erum að reyna að bæta þá leikmenn sem við höfum og fá upp yngri leikmenn. Við eigum góða leikmenn til framtíðar fyrir félagið."

Horfa í efri hlutann
Þá er það stóra spurningin; hvað er markmiðið fyrir sumarið?

„Markmiðið er að enda í efri hluta deildarinnar," sagði Guðlaugur og markmiðið að afsanna þessa spá.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner