fös 23. apríl 2021 10:40
Fótbolti.net
Spáir Fylki falli í sumar - „Hafa ekki náð að styrkja sig"
Úr æfingaleik Fylkis gegn Breiðaliki á dögum.
Úr æfingaleik Fylkis gegn Breiðaliki á dögum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er ættaður úr þessu hverfi og líður illa að gera þetta en ég spái Fylki ellefta sæti," segir Rikki G, Ríkharð Óskar Guðnason, en hann var gestur í hlaðvarpsþættinum Ungstirnin þar sem hitað var upp fyrir Pepsi Max-deild karla.

Rikki spáir Fylkismönnum falli og segir að liðið sé einfaldlega veikara heldur en það var í fyrra.

„Fylkir hefur einfaldlega misst of mikið úr liðinu sínu og ekki náð að styrkja stoðirnar nægilega vel. Atli Sveinn, Óli Stígs og Óli Skúla unnu frábærlega saman í fyrra og liðið fór langt í fyrra á trúnni sem þjálfararnir börðu í leikmennina. Hinsvegar er enginn Ólafur Ingi Skúlason lengur og ég tel að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu slæmt það er að missa hann úr klefanum. Ólafur Ingi var tengingin við leikmenn til hinna þjálfarana tveggja," segir Rikki en Ólafur Ingi lagði skóna á hilluna og tók við U19 landsliði Íslands.



„Fylkir hefur misst Valdimar Þór Ingimundarson (til Strömsgodset í Noregi) og þú ert ekkert að spasla í það gat. Það er hræðilegt fyrir þá að missa hann. Dagur Dan er kominn og við vitum ekkert hvað hann er að fara að sýna, við höfum séð marga leikmenn koma heim og hlutirnir hafa ekki gengið."

„Þeir eru að fá enska sóknarmanninn Jordan Brown. Kannski endar það með því að hann og Djair elska að vera saman í liði og þeir taki Cole og Yorke á þetta. Maður á bara eftir að sjá það gerast. Þeir fengu Torfa Tímoteus og leikmann frá Fram (Unnar Stein) sem er með flotta reynslu miðað við ungan aldur en hann var samt að spila í Lengjudeildinni. Það er tvennt ólíkt."

„Styrkingin er bara ekki nægilega mikil miðað við það sem þeir hafa misst og ég tel að það verði bras á Fylkismönnum. Ef hlutirnir ganga ekki hjá Djair eða Brown, hver ætlar þá að skora mörkin? Ef þú skorar ekki mörk og ert í brasi þá ertu ekki að fara að halda þér uppi," segir íþróttafréttamaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason.

Fylki er spáð 8. sæti í spá Fótbolta.net fyrir sumarið. Hlustaðu á Ungstirnin í spilaranum hér að neðan.
Ungstirnin - Pepsi Max upphitun með Rikka G
Athugasemdir
banner
banner
banner