Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 23. apríl 2021 20:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það er svo sannarlega mikil stemning á Króknum
Guðni Þór og Óskar Smári - Þjálfarar Tindastóls
Þjálfarar Tindastóls í sumar.
Þjálfarar Tindastóls í sumar.
Mynd: Fótbolti.net
Stólunum er spáð neðsta sæti deildarinnar.
Stólunum er spáð neðsta sæti deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Það er spennandi sumar framundan á Sauðárkróki þar sem Tindastóll mun í fyrsta sinn í sögu félagsins leika í Pepsi Max-deild kvenna.

Stólunum er spáð tíunda og neðsta sæti deildarinnar í spá Fótbolta.net fyrir sumarið.

„Nei, spáin kemur okkur alls ekki á óvart. Við erum að mæta í fyrsta sinn í efstu deild í sögu félagsins og því eðlilegt að okkur sé spáð falli," segja þjálfararnir, Guðni Þór Einarsson og Óskar Smári Haraldsson.

„Markmiðið er auðvitað að styrkja okkur aðeins og bæta okkur sem lið. Heimastelpurnar okkar sem hafa staðið með okkur síðan í 2. deild fá núna sitt tækifæri að spila í efstu deild. Á okkur er ekki nein pressa nema kannski frá okkur sjálfum. Markmiðið verður að vera það að njóta þess að spila við þær bestu en jafnframt halda áfram uppbyggingu fótboltans á Sauðárkróki og festa okkur í sessi á stóra sviðinu."

„Við viljum sanna að við eigum heima í þessari deild. Við setjum markið eins hátt og við mögulega getum og teljum svo stigin úr pottinum að loknu tímabili."

Tindastóll hefur ekki styrkt sig mjög mikið á undirbúningstímabilinu en þjálfararnir eru ánægðir með þá leikmenn sem eru komnir til félagsins.

„Hingað til erum við ánægðir með þá leikmenn sem hafa komið. Dominique Bond-Flasza er byrjuð að æfa með liðinu, landsliðskona Jamaíka. Hún er fjölhæfur leikmaður og getur leyst nokkrar stöður á vellinum. Hallgerður Kristjánsdóttir kemur aftur, en hún var að láni í fyrra frá Val fyrri hluta tímabilsins. Hún fór í skóla til Hawaii, en skrifaði undir samning hjá okkur í vetur. Við erum ánægðir að hafa krækt í þessa tvö öfluga leikmenn."

„Já, við reiknum með því að fá meiri liðsstyrk. Við erum hins vegar ánægðir með hópinn okkar, stelpurnar eru búnar að leggja mjög hart að sér í allan vetur og fengið góða reynslu gegn liðum úr efstu deild. Við erum mjög stolt af uppbyggingu liðsins og framförum okkar uppöldu leikmanna. Þær hafa unnið hart að sínu stóra markmiði; ekki bara að spila í efstu deild, heldur sanna sig sem góðir efstu deildar leikmenn."

„Við sjáum fyrir okkur að deildin verði jafnari, öll liðin í deildinni eru sterk og margir frábærir leikmenn þannig að við sjáum fyrir okkur mjög svo skemmtilega en jafnframt krefjandi deild í sumar. Við reiknum með að risarnir tveir, Valur og Breiðablik, muni berjast á toppnum og mögulega að Fylkir og Þór/KA nái að blanda sér í baráttuna."

Það er mikil stemning á Króknum fyrir tímabilinu.

„Það er svo sannarlega mikil stemning á Króknum. Eftir að við tryggðum okkur sigur í Lengjudeildinni var ákveðið að hefja framkvæmdir á nýrri stúku við völlinn okkar sem er einn liður í því að hafa umgjörðina sem veglegasta. Við finnum fyrir gríðarlegum stuðningi meðal okkar stuðningsfólks sem bíða spennt eftir að sjá liðið spreyta sig í Pepsi-Max deildinni."

„Sauðárkróksvöllur mun verða okkur afar dýrmætur þar sem allir okkar stuðningsmenn og bakland hvetja okkur til dáða gegn bestu liðum landsins," segja þjálfararnir tveir að lokum.
Athugasemdir
banner
banner