banner
   fim 23. maí 2019 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Árni Vill hefur skorað fimm mörk í síðustu fimm leikjum
Árni Vilhjálmsson.
Árni Vilhjálmsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Vilhjálmsson var lánaður til Chornomorets Odessa í Úkraínu í lok febrúar á þessu ári.

Árni hefur verið sjóðandi heitur í síðustu leikjum með liðinu og skorað fimm mörk í síðustu fimm leikjum. Hann segist vera ánægður með spilamennsku sína upp á síðkastið en liðið er í mikilli fallbaráttu.

Ánægður með tímann í Úkraínu
„Ég er heppinn með þjálfara sem gefur mér mikið traust og mikilvægi í liðinu. Það var gott að ná inn marki snemma eftir að ég vann mig inn í liðið. Það hefur gengið vel undanfarið að koma boltanum í netið. Spilamennskan hjá liðinu hefur verið góð undanfarna leiki og það hjálpar manni mikið," sagði Árni í samtali við Fótbolta.net og bætir við að hann hafi lært mikið á þessum tíma í Úkraínu.

„Hér eru margir reynsluboltar og góðir leikmenn sem hjálpa manni að þróast og verða að betri leikmanni. Þetta hefur verið mjög ánægjulegt."

Árni er fyrsti íslenski fótboltamaðurinn sem leikur með félagi í Úkraínu.

„Tíminn hér hefur verið öðruvísi en ég átti von á. Þetta er sterkari deild en ég bjóst við. En eg hef verið heppinn með liðsfélaga og þjálfara sem hafa hjálpað mér að aðlagast eins fljótt og hægt er. Úkraína er ansi flott og skemmtilegt land með frábæran kúltúr og góðu fólki. Borgin sem ég bý í er ein flottasta sumarstaðsetning í Austur-Evrópu og rosa gott að búa í. Tíminn í Úkraínu hefur verið ansi indæll og ég er rosalega ánægður og þakklátur fyrir að fá að koma hingað," sagði Árni en styrkleiki deildarinnar hefur komið honum á óvart.

„Þetta er besta deild sem ég hef spilað í hingað til. Það eru stórlið í þessari deild og mörg lið ansi góð hérna ásamt því að öll lið spila á frábærum völlum með góða stuðningsmenn. Þetta er mun meiri taktískari deild heldur en á öðrum stöðum sem ég hef verið á og leikmenn hér eru einnig mjög teknískir. Þessi deild er talin vera níunda besta deild í Evrópu samkvæmt UEFA, þannig að það er auðséð að þessi deild er ansi sterk."

Hefur vakið áhuga víða um Evrópu
Chornomorets Odessa lið Árna á tvo mikilvæga leiki eftir af tímabilinu. Liðið situr á botni deildarinnar en liðið er stigi frá umspilssæti.

„Þetta eru tveir úrslitaleikir framundan. Við tökum bara hvern leik fyrir sig og reynum að vinna þessa leiki. Við höfum verið að ná góðum takti í liðinu undanfarið. Við þurfum að halda því áfram. Við erum stigi á eftir næsta liði þannig eina sem við getum gert er að fókusera á okkar leiki og vonast eftir þvi að liðin fyrir ofan okkur tapi stigum."

Árni er samningsbundinn pólska 1. deildarliðinu, Termaliki Nieciecza.
Hann segist ekki vera farinn að hugsa út í næsta tímabil.

„Ég tók þá ákvörðun þegar ég kom hingað að hugsa um einn leik í einu og sjá hverju það myndi skila sér. Það hefur gengið vel hingað til og hef ég fengið áhuga víða um Evrópu. Mín hugsun er að einbeita mér af þessum síðustu tveimur leikjum sem eru enn eftir. Eftir það sest ég síðan niður með umboðsmanninum og fer yfir málin," sagði Árni Vilhjálmsson að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner