Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 23. júlí 2018 15:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mourinho eftir jafnteflið í gær: Erum ekki lið
Mynd: Getty Images
Alexis Sanchez.
Alexis Sanchez.
Mynd: Getty Images
Manchester United gerði markalaust jafntefli við San Jose Earthquakes í æfingaleik í Bandaríkjunum í gær. Sano Jose er á botni Vesturdeildar MLS-deildarinnar með 12 stig úr 19 leikjum og þessi úrslit eru því ekki frábær fyrir United.

Man Utd mætti með ágætlega sterkt lið til leiks og voru leikmenn eins og Eric Bailly, Ander Herrera, Alexis Sanchez og Anthony Martial að spila í blanda við unga og spennandi leikmenn.

Leikurinn í gær var tíðindalítill en San Jose var ef eitthvað er líklegra liðið til að skora.

Lee Grant, sem United fékk á dögunum frá Stoke, stóð í marki rauðu djöflanna og stóð sig vel.

Jose Mourinho, stjóri Man Utd, virðist vera eitthvað þungur í brún á þessu undirbúningstímabili. Eftir fyrsta æfingaleik þessa undirbúningstímabils, sem var gegn Club America, varaði Mourinho við stórum töpum næstu vikurnar.

Eftir leikinn í gær sagðist hann ekki vera með lið í höndunum þessa stundina. Margir leikmenn United eru í fríi eftir að hafa farið langt með landsliðum sínum á HM. Mourinho saknar leikmanna sinna, en hann er með marga unga stráka í þessari æfingaferð.

„Við erum ekki lið. Ég er með hóp leikmanna úr mismunandi liðum," sagði Mourinho við sjónvarpsstöð Man Utd eftir leikinn.

„Sumir eru úr aðalliðinu, sumir eru úr U23 liðinu, sumir eru að koma úr láni og eru að fara aftur á lán, sumir eru yngri, í U18 liðinu. Við getum ekki verið með lið sem spilar betur en þetta en þetta var önnur æfing fyrir okkur."

Mourinho hrósaði Alexis Sanchez og Andreas Pereira sem voru báðir í byrjunarliðinu í gær.

„Alexis var góður. Þetta var fyrsti leikurinn hans, en hann er búinn að vera æfa einn. Hann þurfti á þessu að halda," sagði Mourinho en Sanchez er nýkominn til Bandaríkjanna eftir að hafa verið í vandræðum með að fá landvistarleyfi í Bandaríkjunum.

„Andreas er að spila ágætlega. Hann verður að gera hlutina einfaldari en hann er með persónuleika til að vilja boltann og skipuleggja. Ég er ánægður."

Næsti leikur Man Utd er gegn AC Milan í International Champions Cup á fimmtudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner