mán 23. júlí 2018 10:18
Brynjar Ingi Erluson
Richarlison mættur í læknisskoðun - Digne næstur inn?
Richarlison í leik með Watford á síðasta tímabili
Richarlison í leik með Watford á síðasta tímabili
Mynd: Getty Images
Lucas Digne
Lucas Digne
Mynd: Getty Images
Brasilíski leikmaðurinn Richarlison er við það að ganga í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Everton en hann er í læknisskoðun hjá félaginu. Fréttastofa Sky Sports greinir frá.

Richarlison, sem er 21 árs gamall, samdi við Watford fyrir síðasta tímabil frá brasilíska liðinu Fluminense og kostaði þá enska félagið aðeins 11,2 milljónir punda.

Hann átti ágætis tímabil með Watford en skoraði þó aðeins 5 mörk í 41 leik í öllum keppnum og því ansi margir sem reka upp stór augu þegar horft er á verðmiðann.

Everton lagði fram 50 milljón punda tilboð í leikmanninn á dögunum og samþykkti Watford það. Hann er í læknisskoðun á æfingasvæði Everton sem stendur og verður svo kynntur sem leikmaður liðsins á langtímasamning.

Það er mikill kraftur í Richarlison og er hann með skemmtilega eiginleika en hann á þó enn eftir að sanna það að hann sé 50 milljón punda maður og verður fróðlegt að fylgjast með honum í Everton-treyjunni.

Barcelona hefur þá samþykkt 22 milljón punda tilboð í franska vinstri bakvörðinn Lucas Digne en það er undir leikmanninum komið hvort hann hafi áhuga á því að spila á Goodison Park eða vera áfram á Nou Camp.






 



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner