Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
banner
   mán 23. júlí 2018 12:37
Brynjar Ingi Erluson
Salah sýnir Karius stuðning - „Ekki hlusta á þá sem dreifa hatri"
Loris Karius
Loris Karius
Mynd: Getty Images
Mohamed Salah kom sínum manni til varnar
Mohamed Salah kom sínum manni til varnar
Mynd: Getty Images
Mohamed Salah, leikmaður Liverpool á Englandi, hefur komið Loris Karius, samherja sínum, til varnar eftir slæman leik sem hann átti gegn Borussia Dortmund í gær en þýski markvörðurinn er að fá mikla gagnrýni á sig í byrjun undirbúningstímabilsins.

Óhætt er að segja það að Karius hafi verið í sviðsljósinu síðustu mánuði en hann átti ævintýralega slakan leik gegn Real Madrid í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Hann gaf fyrst Karim Benzema mark á silfurfati áður en hann misreiknaði fast skot Gareth Bale og 3:1 sigur Madrídinga staðreynd í úrslitum.

Þegar undirbúningstímabilið hófst þá héldu vandræðin áfram en hann missti boltann í upphitun fyrir fyrsta leik gegn Chester og þá fékk hann einnig gusuna yfir sig eftir leikinn gegn Tranmere Rovers.

Sjálfstraustið hefur verið í molum hjá kappanum og átti hann aftur slakan leik í gær er Liverpool tapaði 3:1 fyrir Dortmund. Liverpool er þegar búið að staðfesta kaup á Alisson Becker frá Roma en hann er dýrasti markvörður heims og morgunljóst að Karius verður annar kostur.

Karius birti mynd á Instagram í gær þar sem hann ræddi um gagnrýnina og nú hefur Mohamed Salah, einn besti leikmaður Liverpool, komið honum til varnar og sýnt honum stuðning.

„Vertu sterkur, Karius. Þetta hefur gerst fyrir marga af bestu leikmönnum heims. Ekki hlusta á þá sem dreifa hatri," skrifaði Salah á Twitter.



Athugasemdir
banner
banner