mán 23. ágúst 2021 08:50
Elvar Geir Magnússon
Átök milli leikmanna og áhorfenda í Frakklandi
Allt á suðupunkti í Hreiðrinu í Nice.
Allt á suðupunkti í Hreiðrinu í Nice.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það var sannkallað fjaðrafok í Hreiðrinu í Nice í gær þegar Marseille kom í heimsókn í frönsku deildinni. Leikmenn Marseille neituðu að snúa aftur út á völlinn eftir að hafa lent í átökum við áhorfendur heimamanna.

Leikurinn var stöðvaður á 75. mínútu þegar allt sauð upp úr. Dimitri Payet, leikmaður Marseille og fyrrum leikmaður West Ham, fékk í sig flösku úr stúkunni og brást við með því að kasta henni til baka.

Í kjölfarið óðu stuðningsmenn út á völlinn og til átaka kom milli leikmanna Marseille og stuðningsmanna Nice. Lögreglu og öryggisgæslu gekk illa að róa mannskapinn og dómarinn tók þá ákvörðun að kalla liðin af velli.

Ýmsu lauslegu hafði verið kastað út á vallarsvæðið áður en til átaka kom í leiknum og hafði vallarþulurinn árangurslaust reynt að fá fólk til að láta af þeirri hegðun.

Jorge Sampaoli, þjálfari Marseille, var bálreiður og þurftu starfsmenn Marseille að halda aftur af honum þegar hann ætlaði að hella sér yfir forráðamenn Nice.

90 mínútum eftir að leikurinn hafði verið stöðvaður ætlaði dómarinn að flauta hann á aftur en leikmenn Marseille neituðu að koma út. Aðeins leikmenn Nice mættu út á völlinn og dómarinn átti ekki annarra kosta völ en að flauta leikinn af.

Nice var yfir í leiknum 1-0, eftir mark Kasper Dolberg, þegar leik var hætt. Reglur deildarinnar segir að af lið hindri að leikur fari fram þá fái andstæðingurinn dæmdan 3-0 sigur en líklegt er að Marseille muni áfrýja verði það niðurstaðan.




Athugasemdir
banner
banner
banner