mán 23. ágúst 2021 11:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Íslandsvinur vill bæta Vardy í flóruna hjá Man Utd
Jamie Vardy.
Jamie Vardy.
Mynd: EPA
Íslandsvinurinn Lee Sharpe hefur ráðlagt Manchester United að kaupa sóknarmanninn Jamie Vardy frá Leicester.

Sharpe er fyrrum leikmaður Manchester United. Hann spilaði einnig með Grindavík á sínum leikmannaferli.

United hefur fengið þrjá leikmenn í sumar; Jadon Sancho, Raphael Varane og Tom Heaton. Mikið er talað um að það liðið þurfi að bæta við miðjumanni en Sharpe segir að það vanti sóknarmann.

„Þeim vantar annan markaskorara sem getur skorað 20-25 mörk á tímabili," sagði Sharpe við The Mirror.

„Cavani er í heimsklassa en hann mun ekki spila hverja einustu mínútu. Það hefur verið talað um að Haaland komi á næsta ári, en United vantar níu núna. Einhvern eins og Vardy. Hann yrði flottur í nokkur tímabil."

Vardy, sem er 34 ára, skrifaði nýverið undir nýjan samning við Leicester sem gildir til 2023. Hann verður í eldlínunni í kvöld gegn West Ham.

United er með Edinson Cavani, Mason Greenwood, Marcus Rashford og Anthony Martial sem geta spilað fremst á vellinum. Samt telur Sharpe að það sé nauðsynlegt að bæta við öðrum sóknarmanni.
Athugasemdir
banner
banner
banner