mán 23. ágúst 2021 21:16
Brynjar Ingi Erluson
Pepsi Max-deildin: Mikilvægur sigur Stjörnunnar á Fylki
Emil Atlason skoraði annað mark Stjörnunnar
Emil Atlason skoraði annað mark Stjörnunnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan 2 - 0 Fylkir
1-0 Björn Berg Bryde ('17 )
2-0 Emil Atlason ('84 )
Lestu um leikinn

Stjarnan er að fjarlægjast botnbaráttuna eftir 2-0 sigur á Fylki í Pepsi Max-deild karla í kvöld.

Stjörnumenn fóru leikinn af stað með látum. Óli Valur Ómarsson átti skalla strax í fyrstu sókn sem Ólafur Kristófer Helgason varði frábærlega í horn.

Heimamenn sóttu án afláts og skilaði það sér með marki á 17. mínútu. Björn Berg Bryde stangaði hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar í netið. 1-0.

Orri Hrafn Kjartansson var nálægt því að jafna metin eftir rúmlega hálftíma þegar Arnór Borg Guðjohnsen átti sendingu inn í teiginn og Orri kominn í gegn en skot hans fór framhjá úr ákjósanlegu færi.

Stjörnumenn kláruðu dæmið undir lok síðari hálfleiks. Emil Atlason átti fyrst skot í slá á 80. mínútu en hann bætti upp fyrir það með marki fjórum mínútum síðar. Eggert Aron Guðmundsson gerði vel í undirbúningnum, kom boltanum á Emil sem lét vaða fyrir utan teig og inn fór boltinn.

Lokatölur 2-0 fyrir Stjörnumönnum sem eru nú með 19 stig í 8. sæti en Fylkir með 16 stig í 10 .sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner