Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 23. september 2018 15:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Svíþjóð: Rakel með mikilvægt mark - Glódís skoraði líka
Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenskar landsliðskonur voru á skotskónum í sænsku úrvalsdeildinni en þrír leikir voru á dagskrá í deildinni í dag.

Rakel Hönnudóttir skoraði sigurmark Limhamn Bunkeflo í afar mikilvægum sigri gegn Vittsjö í fallbaráttuslag. Rakel skoraði það sem reyndist vera eina mark leiksins á 55. mínútu leiksins.

Þetta var afar mikilvægur sigur fyrir LB07 en liðið er núna þremur stigum frá öruggu sæti.

Rakel spilaði allan leikinn eins og Anna Björk Kristjánsdóttir en þær eru liðsfélagar hjá LB07.

Það var Íslendingaslagur þegar Rosengård fékk Kristianstad í heimsókn. Svo fór að Rosengård vann 3-0 sigur og skoraði Glódís Perla Viggósdóttir fyrsta markið fyrir Rosengård.

Glódís spilaði allan leikinn en hinum megin var Sif Atladóttir í vörninni.

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad, sjö stigum frá toppnum. Rosengård er í öðru sæti, þremur stigum frá toppnum.

Í síðasta leik dagsins tapaði Djurgården 1-0 fyrir toppliði Piteå. Guðbjörg Gunnarsdóttir, aðalmarkvörður landsliðsins, þurfti að fara meidd af velli en staðan var 1-0 þegar hún fór af velli. Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn fyrir Djurgården.

Djurgården er í áttunda sæti í fínum málum en það eru fjórar umferðir eftir af deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner