Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 24. mars 2021 10:22
Magnús Már Einarsson
Jói og Raggi spila ekki alla leikina
Icelandair
Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson á landsliðsæfingu.
Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar Sigurðsson á æfingu í Þýskalandi.
Ragnar Sigurðsson á æfingu í Þýskalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, segir ljóst að einhverjir leikmenn séu ekki í líkamlegu standi til að spila alla þrjá leikina sem liðið spilar í undankeppni HM á næstu sex dögum.

Ísland mætir Þýskalandi á morgun og í kjölfarið er leikur við Armeníu á sunnudag og Liechtenstein á miðvikudag í næstu viku.

„Það eru allir akkúrat núna á blaði fyrir leikinn á morgun. Við erum með tuttugu útispilara og þrjá markmenn. Flestir eru með grænt og eru leikfærir í dag. Það eru einhverjir að fara að esta í dag og vera með á æfingu í fyrsta skipti á hærra tempói í dag. Jói mun æfa aðeins meira í dag og síðan skoðum við það eftir æfigu með læknateymið. Planið er að þessir tuttugu plús markmenn verði heilir á morgun," sagði Arnar.

Jóhann Berg hefur lítið æft í aðdraganda leiksins og Arnar segir ljóst að hann spili ekki alla leikina í glugganum.

„Það er hárrétt. Við erum ekki að fara að nota Jóa í þremur leikjum í þessum glugga. Hann er ekki sá eini sem verður ekki notaður í þremur leikjum. Það er mikilvægt fyrr öll landslið að stýra álaginu mjög vel og gera sér grein fyrir því hvaða leikmenn geta spilað margar mínútur á stuttum tíma. Hvort hann spili á morgun eða ekki vil ég ekki gefa út núna því ég vona að sjálfsögðu að við getum notað Jóa á morgun."

Reynsla Ragga mikilvæg
Ragnar Sigurðsson hefur einungis spilað einn hálfleik með Rukh Vynnyky í Úkraínu á þessu ári og hann mun heldur ekki spila alla þrjá leikina í glugganum.

„Raggi hefur ekki mikla leikæfingu akkúrat núna. Hann spilaði fyrir tveimur vikum sinn fyrsta leik. Vikunni þar á eftir var leik frestað hjá þeim. Raggi er einn af þeim leikmönnum sem er ekki í mikilli leikæfingu."

„Það er ekki bara leikæfing sem er mikilvæg. Margir leikmenn hjá okkur hafa svo mikla reynslu í bakpokanum að það eru ekki allir sem þurfa að vera í miklu leikformi til að spila. Hvort sem það er 1, 2 eða 3 leikir. Raggi er einn af þeim leikmönnum sem getur ekki spilað þrjá leiki í þessum glugga. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa leikmenn eins og Ragga í hópnum því han er einn af þeim sem búa yfir þessari reynslu."

„Að hafa svona mikla leikreynslu þýðir að þú þekkir aðstæður á vellinum mikið fyrr en leikmenn sem hafa ekki reynslu. Leikmenn sem eru ungir og að koma inn eru mjög áræðnir en leikmenn sem eru leikreyndari geta nýtt sér heilabúið og allt sem hefur gerst til að meta aðstæður og taka réttar ákvarðanir inni á vellinum."


Aron meiðslafrír
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, var spurður út í líkamlegt ástand sitt en hann segist vera í góðu standi.

„Mér líður mjög vel. Við verðum að taka stöðuna leik eftir leik. Ég er meiðslafrír og í góðu formi og við tökum stöðuna. Þetta verður svipað með flesta leikmenn. Við verðum að lesa í það og sjá hvernig menn koma úr hverjum leik fyrir sig. Sem betur fer erum við með gott lækna og sjúkrateymi sem er tilbúið að gera extra fyrir okkur sem hafa komið illa úr leik," sagði Aron.
Athugasemdir
banner
banner
banner