banner
   mið 24. apríl 2019 19:09
Ívan Guðjón Baldursson
Svíþjóð: Arnór Ingvi skoraði og lagði upp gegn Viðari
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Malmö 4 - 1 Hammarby
0-1 M. Tankovic ('12)
1-1 Arnór Ingvi Traustason ('52)
2-1 J. Andersen ('60, sjálfsmark)
3-1 S. Rieks ('70)
4-1 M. Rosenberg ('82)

Arnór Ingvi Traustason og Viðar Örn Kjartansson mættu hvorum öðrum í efstu deild sænska boltans í dag.

Arnór Ingvi var í byrjunarliði Malmö sem tók á móti Viðari Erni og félögum í Hammarby. Gestirnir leiddu 0-1 í hálfleik eftir mark frá Muamer Tankovic sem slapp einn í gegn eftir langa sendingu snemma leiks.

Malmö sneri stöðunni gjörsamlega við eftir leikhlé og jafnaði Arnór Ingvi leikinn með glæsilegu marki snemma í síðari hálfleik. Hann lagði boltann í fjærhornið með laglegu skoti af vítateigslínunni þrátt fyrir að vera með þrjá varnarmenn í sér.

Heimamenn í Malmö komust svo yfir þökk sé einstaklega klaufalegu sjálfsmarki sem kom eftir mikið klafs í kjölfar hornspyrnu. Tíu mínútum síðar lagði Arnór Ingvi þriðja mark sinna manna upp með góðri sendingu á Sören Rieks.

Þetta var fimmti leikur beggja liða á tímabilinu. Malmö er búið að sigra þrjá í röð og er í öðru sæti, með tíu stig. Hammarby er aðeins búið að vinna einn leik og er með fimm stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner