Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 24. apríl 2021 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég er meiri túristi þegar ég er í Englandi"
Lengjudeildin
Dean Martin, þjálfari Selfoss.
Dean Martin, þjálfari Selfoss.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var í liði sem vann næst efstu deild fyrir tíu árum síðan.
Var í liði sem vann næst efstu deild fyrir tíu árum síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Dean líður vel á Selfossi.
Dean líður vel á Selfossi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Selfossi.
Frá Selfossi.
Mynd: Selfoss
Selfossi er spáð tíunda sæti Lengjudeildarinnar.
Selfossi er spáð tíunda sæti Lengjudeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er sanngjörn spá. Við erum í fyrsta skipti í Lengjudeildinni í nokkur ár og við erum ekki búnir að fá marga leikmenn til okkar. Mér finnst þessi spá sanngjörn bara," segir Dean Martin, þjálfari Selfoss, í samtali við Fótbolta.net.

Selfoss er spáð tíunda sæti Lengjudeildarinnar í sumar.

Selfyssingar eru komnir aftur upp í Lengjudeildina eftir tveggja ára veru í 2. deild.

Verið stígandi í liðinu
Dean tók við Selfossi um mitt sumar 2018 en tókst þá ekki að halda liðinu uppi. Englendingurinn knái hefur verið að byggja upp liðið síðustu tvö ár og er núna kominn með liðið aftur upp í næst efstu deild.

„Það hefur verið stígandi í liðinu þessi þrjú ár, mikill stígandi. Ég er mjög ánægður með hugarfar leikmanna og hvernig við höfum verið að þróa þetta. Mér finnst þetta vera á leið í rétta átt."

Íslenska undirbúningstímabilið er langt og strangt, og Selfyssingar hafa verið að æfa vel.

„Við höfum æft mjög vel, það er það eina sem ég get sagt. Það er rosalega mikill metnaður innan hópsins, það er hár 'standard' á æfingum og mikið tempó. Ég er mjög ánægður með hvernig menn haga sér á æfingum; koma á æfingar til að bæta sig, ekki bara til að vera þarna."

Dean hefur verið í þjálfun í tæp 15 ár, hvernig þjálfari er hann? „Ég er krefjandi, ég sett kröfur á leikmenn. Sem þjálfari er ég til staðar til að bæta leikmenn og hjálpa liðinu. Mér finnst rosalega gaman að vinna með ungum leikmönnum. Ég er alltaf að reyna að skila eitthvað eftir mig."

Verið á Íslandi meirihluta ævinnar
Dean Edward Martin er fæddur í Islington á Englandi en hefur varið meirihluta ævinnar á Íslandi. Hann kom fyrst til KA 1995 og hefur verið hér á landi mest megnis með stuttum stoppum annars staðar síðan þá.

„Ég bjóst alls ekki við að vera svona lengi. Maður tekur alltaf bara eitt ár í einu. Þetta eru 26 ár meira og minna, ég fór nokkrum sinnum út inn á milli. Mér líður vel hérna og mér líður vel á Selfossi. Við erum með rosalega góða æfingaaðstöðu og fólkið sem er að vinna í kringum félagið er mjög áhugasamt, og hjálpar rosalega mikið."

„Eftir 26 ár þá man ég ekki rosalega mikið eftir því hvernig er að vera á Englandi, í rauninni. Ég er líka að verða mállaus. Þetta er skrítið. Ég hef verið í UEFA Pro námi síðustu tvö ár og stundum fannst mér erfitt að tjá mig almennilega á ensku. Það tók mig smá tíma að komast aftur inn í enskuna. Þetta er rosalega skrítið."

„En það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt, ný orð. Ég fæ alltaf að vita það þegar ég segi eitthvað vitlaust því leikmenn byrja að hlæja. Það er allt í lagi mín vegna því það á að vera gaman líka."

Hann kveðst líta á Ísland meira sem heimili sitt en England. „Ég er meiri túristi þegar ég er í Englandi eins og staðan er í dag."

Hverju megum við búast við frá Selfossi
Selfoss var einu stigi frá því að komast upp 2019 og í fyrra var liðið í öðru sæti þegar mótið var blásið af. Selfoss komst upp í annað sæti í lokaumferðinni þar sem þeir unnu gegn ÍR á meðan Þróttur Vogum gerði jafntefli við KF. Það var tæpt en þeir komust upp og verða í Lengjudeildinni í sumar.

Hverju megum við búast við frá Selfossi inn á vellinum í sumar?

„Liði sem mun skilja allt eftir á vellinum, lið sem mun alltaf gefa 100 prósent, lið sem mun sækja þrjú stig - við erum ekki komnir í þessa deild til að verða feimnir, við ætlum að spila okkar gerð af fótbolta. Við munum gefa allt í þetta og fara í hvern leik til að ná í þrjú stig eins og öll hin liðin munu gera."

„Við megum ekki vera hræddir fyrir næsta skref, við erum búnir að vinna að þessu í tvö ár núna. Við ætlum að vera þarna. Þetta snýst um að skora meira en andstæðingurinn, þetta snýst um að hafa hugrekki til að fara og vinna fótboltaleikinn - ekki vera hræddur. Við erum bara að spila á móti 11 mönnum. Það skiptir ekki máli hvaða hóp hitt liðið er með, það mega bara 11 byrja inn á. Við erum tilbúnir líkamlega og andlega í að þetta verkefni byrji."

Leikmannahópurinn
Selfyssingar hafa ekki sótt marga leikmenn í vetur. Emir Dokara kom frá Víkingi Ólafsvík og hinn efnilegi Þorlákur Breki Baxter kom frá Hetti/Hugin. Dean reiknar ekki með því að styrkja leikmannahópinn frekar eins og staðan er núna.

„Við erum með ungan og skemmtilegan hóp. Þetta eru menn sem vilja læra, bæta sig og þetta eru leikmenn sem geta farið langt í fótbolta. Eldri leikmennirnir og erlendu leikmennirnir fjórir hjálpa ungu leikmönnunum svakalega mikið að bæta sig. Ef þú nærð í erlenda leikmenn þá verða þeir að bæta hópinn og umhverfið líka."

„Allir leikmennirnir búa á Selfossi og mér finnst það rosalega mikilvægt að það séu Selfyssingar sem spila fyrir liðið, svo fólk langi að koma og horfa, og hafi einhver tengsl við liðið."

Þorsteinn Aron Antonsson var 16 ára orðinn lykilmaður í vörn Selfoss á síðustu leiktíð. Eru aðrir ungir leikmenn sem gætu komið upp hjá liðinu í sumar?

„Við erum með tvo stráka sem eru fæddir 2005. Þorlákur Breki sem kom frá Hetti/Hugin. Hann er lofandi karakter. Svo erum við með Alexander Clive Vokes. Ég er alltaf að segja það ef þú ert nægilega góður þá muntu spila. Þetta snýst ekki um aldur, þetta snýst um getu. Vonandi munum við sjá Þorlák og Alexander á þessu tímabili."

Eru ekki að fara í feluleik
Þá er það stóra spurningin sem allir þjálfarar fá; hvað er markmiðið fyrir sumarið?

„Vinna eins marga leiki og hægt er, fara í alla leiki til að vinna. Ef okkur tekst ekki að vinna þá förum við í næsta leik til að vinna. Við erum ekki komnir til að fela okkur og liggja í varnarleik. Við viljum fá eins lítið af mörkum og við getum fengið á okkur, en við viljum skora líka. Við munum hafa hugrekki til að reyna og fara að vinna leiki," sagði Dean Martin, þjálfari Selfyssinga.
Athugasemdir
banner
banner