Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 24. apríl 2021 08:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Fengum góða reynslu af deildinni sumarið 2019"
Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur.
Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík er komið aftur í deild þeirra bestu eftir ekki nema eins árs fjarveru. Gunnar Magnús Jónsson hefur þjálfað Keflavík frá 2016 og er hann á leið í sitt annað tímabil í Pepsi Max-deildinni með liðið. Síðast fór liðið beint aftur niður; hvað gerist í sumar?

Keflavík er spáð níunda sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

„Það kemur aldrei á óvart þegar nýliðum er spáð falli. Aftur á móti teljum við okkur vera í stakk búin til að gera betur, erum með góðan leikmannahóp og undirbúningstímabilið gengið vel," segir Gunnar Magnús, þjálfari Keflavíkur.

„Við fengum góða reynslu af Pepsi Max-deildinni sumarið 2019. Eitt af markmiðunum er klárlega að nýta okkur þá reynslu til góðs og gera betur að þessu sinni og halda liðinu í deild þeirra bestu."

Keflavík hefur bætt nokkru við leikmannahóp sinn og Gunnar er ánægður með liðsstyrkinn.

„Við höfum bætt við okkur nokkrum nýjum leikmönnum og fengið heimastelpur til baka úr láni. Ég er mjög ánægður með liðsstyrkinn og nýir leikmenn passa vel inn í okkar flotta hóp. Við vonumst til að bæta við einum leikmanni fyrir gluggalok," segir Gunnar.

Hann telur að Breiðablik og Valur verði áfram í sérflokki í deildinni en baráttan á milli annarra liða verði mjög hörð.

„Svipað og verið hefur síðastliðin ár varðandi toppsætin, Breiðablik og Valur eiga fyrstu tvö sætin “frátekin”. Baráttan um önnur sæti verður hörð og skemmtileg og ómögulegt að spá fyrir um röð liðanna, getur farið á alla vegu."

„Deildin hefur misst marga afburðar leikmenn og spurning hvort það komi niður á gæðum deildarinnar. Í því felast þó tækifæri fyrir aðra leikmenn að stíga upp og láta til sín taka," sagði Gunnar, þjálfari Keflavíkur, að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner