Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 24. maí 2021 22:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Mekka fótboltans og heldur þú að fólkið sé bara ánægt með að hanga í deildinni?"
ÍA er með fimm stig eftir sex leiki í Pepsi Max-deildinni.
ÍA er með fimm stig eftir sex leiki í Pepsi Max-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það var áhugaverð umræða um ÍA í Stúkunni á Stöð 2 Sport eftir leik liðsins gegn Breiðablik.

ÍA tapaði 2-3 og er með fimm stig eftir sex leiki í Pepsi Max-deildinni.

Guðmundur Benediktsson spurði Skagamanninn Jón Þór Hauksson: „Hvað yrðu Skagamenn sáttir með á þessu tímabili? Hvert stefnir Skaginn?"

„Ég átta mig ekki alveg nægilega vel á því, hvert markmiðið er og hverjar væntingarnar eru. Ég held að hinn almenni stuðningsmaður verði hæstánægður með það ef liðið fellur ekki um deild. Hvað það er sem knattspyrnufélagið leggur upp með, ég átta mig ekki alveg á því," sagði Jón Þór.

ÍA er stórveldi í íslenskum fótbolta en hefur síðustu ár ekki verið að berjast á toppnum. Ólafur Jóhannesson, sigursælasti þjálfari Íslands síðustu 20 ára, segir að Akranes sé mekka fótboltans og þar eigi að gera meiri kröfur.

„Skaginn að berjast í neðri hlutanum og hinn almenni stuðningsmaður ánægður að halda sér í deildinni? Hvað er að ykkur þarna upp frá? Hverslags bull er þetta! Þetta er mekka fótboltans og heldur þú að fólkið sé bara ánægt með að hanga í deildinni? Nei!" sagði Ólafur en hann segir að miðað við liðið sé samt ekki hægt að fara fram á meira.

„Þá kemur líka að því, þessari leikmannastefnu sem hefur verið undanfarin ár. Þetta er gríðarlegt magn af leikmönnum sem hafa komið og farið síðustu þrjú, fjögur ár. Það er óreiða í leikmannamálum sem kemur liðinu á þann stað þar sem það er á í dag. Við sjáum á leikmönnunum í liðinu í dag að þeir koma víða að og margir eru ekki nógu góðir og hafa ekki verið að standa sig nægilega vel. Því miður er staðan þannig að væntingarnar eru þannig að liðið haldi sér í deildinni, ég held að það hljóti að vera," sagði Jón Þór.

„Ég held að það sé hægt að segja það í fáum orðum, að tillaga Skagans um breytingar á fótbolta á Íslandi var að fjölga í deildinni. Af hverju? Það segir allt um þetta, þeir eru svo hræddir við að falla," sagði Ólafur.

Hægt er að lesa um leik ÍA og Breiðablik með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner