Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
banner
   mán 24. maí 2021 21:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Seigla í Val, betra hjá Blikum og KA lagði Stjörnuna
Valsmenn eru á toppnum.
Valsmenn eru á toppnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir var á skotskónum.
Birkir var á skotskónum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elfar Árni gerði sigurmark KA.
Elfar Árni gerði sigurmark KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Jason Daði skoraði og lagði upp í sigri Blika á Akranesi.
Jason Daði skoraði og lagði upp í sigri Blika á Akranesi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Útlitið er betra hjá Blikum.
Útlitið er betra hjá Blikum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Valsmenn eru seigir. Þeir skelltu sér á topp Pepsi Max-deildarinnar í kvöld, þeir eru búnir að vinna fimm af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni.

Í kvöld heimsóttu Íslandsmeistararnir nýliða Keflavíkur suður með sjó. Keflvíkingar hafa ekki litið vel út að undanförnu, og þá sérstaklega varnarlega.

Þeir náðu að halda aftur að meisturunum í tæplega 40 mínútur í kvöld. Rasmus Christiansen, sem var fyrirliði Vals í kvöld, skoraði þá eftir hornspyrnu. Staðan var 0-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Birkir Már Sævarsson er valinn af rúmlega 53 prósent af Fantasy spilurum hér á Íslandi og hann gladdi þá með því að skora annað mark Vals í seinni hálfleiknum. „Síðustu leikir Keflavíkur í hnotskurn. Boltinn skoppar á milli manna í teignum og heimamenn koma boltanum ekki frá sem endar hjá Birki sem getur ekki annað en skorað af stuttu færi," skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu.

Smelltu hér til að fara á síðu Draumaliðsdeildarinnar

Meistararnir eru skynsamir og þeir sigldu sigrinum heim. Joey Gibbs minnkaði muninn undir lokin, 2-1. Þetta hafa ekki verið neinir risasigrar hjá Val í upphafi móts en þeir eru að klára sína leiki og það er í raun það eina sem skiptir máli. Valsmenn eru á toppi deildarinnar með 16 stig en Keflvíkingar eru með þrjú stig í tíunda sæti.

Stjarnan í ruglinu en KA aftur á sigurbraut
Fyrir neðan Keflavík eru HK og Stjarnan. Það hefur ekkert gengið upp hjá Stjörnunni í upphafi Íslandsmótsins. Það er óhætt að segja að það sé krísa í Garðabænum.

Stjarnan fékk KA í heimsókn í kvöld í leik sem var ekki mikil skemmtun. Staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, gerði vel í byrjun seinni hálfleiks þegar hann lokaði á Sebastiaan Brebels, miðjumann KA. Hilmar Árni Halldórsson, sem hefur átt erfitt uppdráttar í upphafi móts, fékk gott færi til að koma Stjörnunni yfir en Stubbur varði vel frá honum í marki KA. Svo kom eina mark leiksins.

„Varamaðurinn Elfar Árni fær boltann fyrir fætur sér inn í teig og nær skot að marki sem siglir framhjá Halla í markinu," skrifaði Matthías Freyr Matthíasson í beinni textalýsingu þegar Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA yfir.

Það var eina mark leiksins, lokatölur 1-0. Stjarnan er áfram á botni deildarinnar með aðeins tvö stig. Hræðileg byrjun í Garðabænum en þeir bláu hafa ekki skorað í fimm af sex leikjum sínum. KA aftur á móti er komið aftur á sigurbraut og þeir eru með 13 stig í öðru sæti.

Blikar fara í göngin með stigin þrjú
Það var mikið talað um Breiðablik í síðustu viku, jafnvel talað um að það væri farið að hitna undir Óskari Hrafni, þjálfari liðsins. En staðan er fljót að breytast í hraðmótinu sem Pepsi Max-deildin er.

Breiðablik hefur núna unnið tvo leiki í röð og er komið upp í fimmta sæti með tíu stig. Þeir fóru á Akranes í kvöld og unnu þar góðan sigur.

Fyrri hálfleikurinn var fjörugur og bæði lið gerðu tilkall til að fá vítaspyrnu. Ekkert var dæmt og Blikar tóku forystuna á 42. mínútu þegar Gísli Eyjólfsson, sem var nýverið valinn í landsliðshópinn, skoraði. Blikar hefðu hæglega bætt við fleiri mörkum áður en flautað var til hálfleiks.

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, gerði þrefalda breytingu í hálfleik og eftir tvær mínútur í seinni hálfleik jöfnuðu Skagamenn. Varamaðurinn Brynjar Snær Pálsson tók hornspyrnu sem Viktor Jónsson stýrði í netið, 1-1.

Staðan var hins vegar ekki lengi jöfn. Á 55. mínútu gerðist þetta: „Óttar ætlar eitthvað að skýla boltanum sem er að snúast inná teignum, Gísli hirðir boltann bara af Óttari og neglir fyrir þar sem Jason Daði setur boltann inn en ekki yfir í þetta skiptið!" skrifaði Baldvin Már Borgarsson í beinni textalýsingu.

Blikar vildu vítaspyrnu á 69. mínútu en ekkert var dæmt. Átta mínútum skoraði Árni Vilhjálmsson mikilvægt mark. Hann skoraði eftir sendingu frá Jasoni Daða. Markið var mikilvægt því Steinar Þorsteinsson minnkaði muninn undir lokin. Það var síðasta markið í leiknum.

Lokatölur 2-3 fyrir Blika sem hoppa sem fyrr segir upp í fimmta sæti deildarinnar. Hlutirnir farnir að líta betur í græna hluta Kópavogs. ÍA vann gegn HK í fimmtu umferð og þeir eru í níunda sæti.

ÍA 2 - 3 Breiðablik
0-1 Gísli Eyjólfsson ('42 )
1-1 Viktor Jónsson ('47 )
1-2 Jason Daði Svanþórsson ('55 )
1-3 Árni Vilhjálmsson ('77 )
2-3 Steinar Þorsteinsson ('89 )
Lestu nánar um leikinn

Stjarnan 0 - 1 KA
0-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('82 )
Lestu nánar um leikinn

Keflavík 1 - 2 Valur
0-1 Rasmus Steenberg Christiansen ('39 )
0-2 Birkir Már Sævarsson ('52 )
1-2 Josep Arthur Gibbs ('93 )
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner