mán 24. maí 2021 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þrjú Íslendingalið berjast um meistaratitilinn í Danmörku í dag
Hjörtur Hermannsson.
Hjörtur Hermannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael Neville leikur með Midtjylland.
Mikael Neville leikur með Midtjylland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lokaumferðin í dönsku úrvalsdeildinni fer fram í dag, mánudag. Það er mikil spenna fyrir lokaumferðina.

Deildin virkar þannig að henni er skipt til helminga eftir 22 leiki. Það eru tólf lið í deildinni og eftir 22 leiki er deildinni skipt í sex og sex liða deildir þar sem efstu sex lið mætast innbyrðis og neðri sex liðin mætast innbyrðis.

Deildin hefur spilast þannig að það er gríðarleg spenna fyrir lokaumferðina í báðum helmingum. Í efri helmingnum eiga þrjú lið möguleika á titlinum fyrir lokaumferðina. Bröndby er á toppnum með 58 stig, svo kemur Midtjylland með 57 stig og FC Kaupmannahöfn með 55 stig.

Bröndby á heimaleik við Nordsjælland í lokaumferðinni, Midtjylland á heimaleik við AGF og FCK heimsækir Randers.

Hjörtur Hermannsson leikur með Bröndby, Mikael Neville Anderson leikur með Midtjylland og það eru ungir Íslendingar í FCK, Hákon Arnar Haraldsson og Orri Steinn Óskarsson. Þá leikur Jón Dagur Þorsteinsson með AGF sem situr í fjórða sæti deildarinnar.

Liðið sem endar efst verður meistari og fer í forkeppni Meistaradeildarinnar. Liðið sem endar í öðru sæti fer einnig í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Það lið sem endar í þriðja sæti fer í forkeppni nýju Sambandsdeildar UEFA sem verður sett á laggirnar fyrir næsta tímabil. Liðið sem endar í fjórða sæti keppir svo við liðið sem endar í efsta sæti í neðri helmingnum um síðasta Evrópusætið, sæti í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Randers, sem er í sjötta sæti, vann bikarinn og fer í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Það er einnig spenna í neðri helmingnum þar sem það munar einu stigi á SönderjyskE og AaB, efstu tveimur liðunum, fyrir lokaumferðina. SönderjyskE og AaB mætast í lokaumferðinni.

Leikir dagsins:
12:00 SönderjyskE - AaB
12:00 Vejle - Lyngby
12:00 OB - Horsens
15:00 Bröndby - Nordsjælland
15:00 Midtjylland - AGF
15:00 Randers - FC Kaupmannahöfn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner