þri 24. maí 2022 18:02
Brynjar Ingi Erluson
Enska úrvalsdeildin samþykkir kaupin á Chelsea
Todd Boehly
Todd Boehly
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Enska úrvalsdeildin hefur samþykkt kauptilboð Todd Boehly á Chelsea en þetta kemur fram í tilkynningu frá deildinni í dag.

Greint var frá því þann 7. maí að Chelsea væri búið að ná samkomulagi við Boehly og fjárfestingahópinn Clearlake um kaup á félaginu.

Rússneski auðkýfingurinn, Roman Abramovich, sá sig tilneyddan til að selja félagið eftir að bresk stjórnvöld settu þvinganir gegn honum vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu.

Ekki var ljóst hvort kaup Boehly myndu ganga í gegn og kom babb í bátinn í síðustu viku. Ráðherrar í Bretlandi höfðu ekki fengið nægar upplýsingar um hvað Abramovich ætlaði að gera við ágóðan af sölunni. Þær upplýsingar virðast hafa skilað sér því enska úrvalsdeildin hefur nú samþykkt söluna.

Talið er að Roman Abramovich skrifi undir lagalega bindandi samning um að lán sitt til félagsins fari á bankareikning sem breska ríkisstjórnin stýrir.

Stefnt er á að þegar samþykki hafi fengist þá muni upphæðin svo renna til styrktar fórnarlömbum stríðsins í Úkraínu.

Chelsea hefur hvorki getað keypt eða selt leikmenn né boðið mönnum nýja samninga. Þá hefur félagið ekki mátt selja nýja miða á heimaleiki sína á Stamford Bridge.

Það er fagnaðarefni fyrir Thomas Tuchel, stjóra Chelsea, að salan sé að ganga í gegn en hann hefur sagst hafa áhyggjur af því að félagið yrði undir í samkeppni um leikmenn þegar glugginn opnar. Chelsea þarf að fá inn varnarmenn.
Athugasemdir
banner
banner
banner