þri 24. maí 2022 21:16
Brynjar Ingi Erluson
Mourinho ekki lengur sá sérstaki - „Þetta heyrir sögunni til"
Jose Mourinho
Jose Mourinho
Mynd: EPA
Jose Mourinho, þjálfari Roma á Ítalíu, vill ekki lengur vera kallaður 'sá sérstaki' af fjölmiðlamönnum en hann undirbýr lið sitt fyrir úrslitaleik gegn Feyenoord í Sambandsdeildinni. Sá leikur fer fram á morgun.

Það muna eflaust margir eftir því er Mourinho tók við Chelsea árið 2004.

Hann gerði Porto að Evrópumeisturum það árið og tók síðan við Chelsea um sumarið en þegar hann mætti á blaðamannafund þá sagði hann við fjölmiðlamenn að hann væri sá sérstaki.

Þetta vakti mikla athygli og hefur hann verið kallaður það síðan en nú er þetta komið gott.

„Það er alveg glórulaust þessi saga með þann sérstaka. Þetta er eitthvað sem var sagt þegar ég var að byrja ferilinn. Maður vex úr grasi og þá hugsar maður meira um að hjálpa öðrum en manni sjálfum," sagði Mourinho.

„Fyrir mér þá heyrir þetta sögunni til. Á morgun ætla ég bara að reyna að hjálpa öðrum," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner