Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 24. júní 2020 21:10
Brynjar Ingi Erluson
England: Meistarabragur á Liverpool
Fabinho og Mohamed Salah fagna marki brasilíska miðjumannsins
Fabinho og Mohamed Salah fagna marki brasilíska miðjumannsins
Mynd: Getty Images
Liverpool 4 - 0 Crystal Palace
1-0 Trent Alexander-Arnold ('23 )
2-0 Mohamed Salah ('44 )
3-0 Fabinho ('55 )
4-0 Sadio Mane ('69 )

Það eru ágætis líkur á því að Liverpool fagni enska deildarmeistaratilinum í sófanum á morgun eftir að liðið vann 4-0 stórsigur á Crystal Palace í 31. umferð deildarinnar í kvöld en leikurinn fór fram á Anfield.

Liverpool-liðið var afar ryðgað í fyrsta leik eftir hlé en liðið gerði þá markalaust jafntefli við Everton. Mohamed Salah, Andy Robertson og Gini Wijnaldum komu aftur inn í liðið í kvöld og var allt annað að sjá til liðsins.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti. Wijnaldum átti fyrsta hættulega færið en boltinn fór framhjá. Það reyndist erfiðara fyrir Crystal Palace þegar Wilfried Zaha þurfti að fara af velli vegna meiðsla á 15. mínútu.

Liverpool braut ísinn á 23. mínútu. Liðið fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Trent Alexander-Arnold tók spyrnuna og stýrði boltanum í samskeytin hægra megin. Frábært mark.

Fimm mínútum síðar átti Jordan Henderson skot í stöng eftir aukaspyrnu frá Andy Robertson. Virgil van Dijk komst nálægt því að skora í sömu sókn en boltinn vildi ekki inn.

Liverpool vildi fá vítaspyrnu seint í síðari hálfleik er Roberto Firmino fékk boltann í teignum og ætlaði að lyfta honum yfir Gary Cahill en boltinn fór í höndina á varnarmanninum. VAR skoðaði atvikið en ákvað að dæma ekki vítaspyrnu. Afar vafasamur dómur en það má skoða atvikið með því að smella hér

Mohamed Salah tvöfaldaði forystu heimamanna á 44. mínútu en það barst bolti frá Fabinho og Salah var kominn einn gegn Hennessey. Hann kláraði færið örugglega. 17. deildarmark hans á tímabilinu.

Liverpool hélt áfram að bæta í sóknina í síðari hálfleik. Fabinho gerði þriðja markið. Það kom upp úr gersamlega engu en hann fékk boltann um 30 metrum frá markinu og lét vaða í hægra hornið.

Sadio Mane elskar að skora gegn Palace og gerði það í kvöld eftir frábæran undirbúning Salah. Mane að skora níunda mark sitt gegn Palace í ellefu leikjum gegn liðinu.

Lokatölur 4-0 á Anfield. Liverpool er með 23 stiga forystu á Manchester City sem mætir Chelsea á morgun. Ef City tapar stigum á morgun þá verður Liverpool meistari.

Sjá einnig:
Sjáðu markið: Alexander-Arnold skoraði beint úr aukaspyrnu
Sjáðu markið: Þrumufleygur frá Fabinho
Athugasemdir
banner
banner
banner