mið 24. júní 2020 22:08
Brynjar Ingi Erluson
Klopp: Þetta eru æðisleg úrslit
Jürgen Klopp var í skýjunum með frammistöðuna
Jürgen Klopp var í skýjunum með frammistöðuna
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var hæstánægður með 4-0 sigurinn á Crystal Palace í kvöld en Liverpool er skrefi nær því að vinna ensku úrvalsdeildina.

Liverpool var ryðgað í fyrsta leiknum eftir hlé. Liðið gerði markalaust jafntefli við Everton en leikmennirnir vildu þó sýna í kvöld að það er ástæða fyrir því að liðið er við það að vinna deildina.

Trent Alexander-Arnold, Mohamed Salah, Fabino og Sadio Mane sáu um að skora mörkin. Klopp var ánægður með pressuna í leiknum og bíður spenntur eftir að horfa á City spila við Chelsea á morgun.

„Ímyndaðu þér ef leikvangurinn hefði verið fullur og allt fólkið hefði upplifað þetta í beinni. Ég er ekki viss um að við hefðum spilað betur því strákarnir spiluðu eins og það væri fullur völlur," sagði Klopp.

„Andrúmsloftið var ótrúlegt. Fyrir þetta hlé sagðist ég vilja sjá bestu leikina bakvið luktar dyr, því vonandi munum við ekki þurfa að spila undir þessum kringumstæðum aftur. Þetta var einhver besta pressa sem ég hef séð. Palace breytti ekki sinni nálgun en samt leið okkur eins og við værum frjálsir."

„Við reyndum að segja strákunum að þeir hefðu verið góðir gegn Everton fyrir utan síðasta þriðjunginn. Þeir ákváðu að bregðast við í dag og þetta var geggjaður leikur. Við vorum 4-0 yfir á 87. mínútu og fjórir leikmenn að sækja á einn leikmann Palace, eins og þetta væri eini fótboltinn í heiminum. Þetta eru frábær úrslit og frábær leikur í heild sinni."

„Strákarnir eru bæði í góðu formi og skapi og það var mikilvægt að sýna stuðningsmönnunum að við erum hér og við viljum ekki bíða lengur."


Chelsea fær Manchester City í heimsókn á Stamford Bridge á morgun en Liverpool getur vel orðið meistari á morgun ef leikurinn endar með jafntefli eða tapi hjá City. Guardiola ætlar að breyta liði sínu mikið fyrir leikinn.

„Þeir eru frábærir. Pep ætti að spila póker og fótboltinn sem þeir spila er magnaður. Við erum ólík lið og við verðum að vera það en við erum líka góð lið. Það eru mismunandi leiðir til að spila fótbolta og mér líst vel á bæði lið," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner