mið 24. júní 2020 15:03
Hafliði Breiðfjörð
Heimild: Vefur Þórs 
Yfirlýsing frá Þór: Þungbær en réttmætur úrskurður
Páll Viðar, Jónas og Alvaro með derhúfurnar á föstudagskvöldið.
Páll Viðar, Jónas og Alvaro með derhúfurnar á föstudagskvöldið.
Mynd: Fótbolti.net
Félagsmenn Þórs eru beðnir afsökunar í yfirlýsingunni.
Félagsmenn Þórs eru beðnir afsökunar í yfirlýsingunni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Þór hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að KSÍ sektaði félagið um 50 þúsund krónur fyrir birtingu ólöglegra veðmálauglýsinga.

Páll Viðar Gíslason þjálfari liðsins, Jónas Björgvin Sigurbergsson og Alvaro Montejo nýttu sér að vera í sjónvarpsviðtali við Fótbolta.net eftir sigurleik gegn Grindavík um helgina og báru derhúfu merkta Coolbet í viðtölunum til að koma merki fyrirtækisins á framfæri.

Veðmálaauglýsingar eru bannaðar með lögum hér á landi en Þór sagðist í yfirlýsingu í gær ekki hafa gert samning við fyrirtækið né þegið greiðslu frá því. Vísir greindi svo frá því í dag að Þór hafi verið með auglýsingu frá Coolbet á árskortum félagsins. Þar með þótti margt benda til að yfirlýsingin frá félaginu væri var ósönn.

KSÍ sektaði félagið svo í dag um 50 þúsund krónur en þó er ekki ljóst hvort málinu sé lokið því Þór braut einnig landslög með athæfinu og gæti átt yfir höfði sér refsingu þar líka. Nýja yfirlýsingu félagsins sem kom rétt í þessu má sjá hér að neðan en þar segir félagið úrskurðinn þungbæran en réttmætan.

Yfirlýsing frá knattspyrnudeild Þórs

Yfirlýsing frá knattspyrnudeild Þórs v/fréttafluttnings um árskort félagsins og úrskurð aga og úrskurðarnefndar.

Í kjölfar fréttafluttnings v/árskorta knattspyrnudeildar Þórs (sem á bakhlið voru merkt marg umræddu veðmálafyrirtæki) skal það tekið fram að KSÍ hefur þegar verið gert kunnugt um að kortin hafi verið til staðar og að þau verði innkölluð.

Úrskurður aga og úrskurðarnefndar þar sem félagið er fundið sekt um að skaða ímynd íslenskrar knattspyrnu er Þór afar þungbær en um leið réttmættur. Svona úrskurði ber ekki að taka léttvægt og óháð þeirri peningasekt sem félagið hlaut er það augljóslega verst að knattspyrnudeild félagsins hafi veirð fundin sek um að skaða annars góða ímynd íslenskrar knattspyrnu. Félagið vill eiga sinn hlut í að viðhalda, virða og auka jákvæða ímynd knattspyrnunnar hér á Íslandi og mun leitast við að haga öllum sínum vinnubrögðum á þann hátt í framtíðinni.

Knattspyrnudeild Þórs hefur verið í sambandi við KSÍ varðandi hvernig best sé að leysa úr þessum stóru mistökum sem stjórn knattspyrnudeildar urðu á og taka fulla ábyrgð á. Stjórn knattspyrnudeildar vill ítreka að deildin harmar þessi stóru mistök sem deildinni urðu á. Sérstaklega finnst okkur mikilvægt að biðja knattspyrnusambandið, knattspyrnuáhugamenn og félagsmenn Þórs afsökunar á framferði okkar.

Forsvarsmenn félagsins vilja að öðru leyti ekki tjá sig við fjölmiðla um þetta mál enda ljóst að áframhaldandi rekstur málsins í fjölmiðlum verður hvorki knattspyrnunni né félaginu til framdráttar.

Sjá einnig:
Þórsarar brutu lög gegn veðmálaauglýsingum í kvöld
KSÍ skoðar mál Þórsara - ÍTF fordæmir hegðunina
Derhúfur Þórsara komnar á borð aganefndar KSÍ
Yfirlýsing Þórs: Harma mistökin
Þór með auglýsingu frá Coolbet á árskortum
Þór sektað um 50 þúsund vegna veðmálaauglýsinga
Yfirlýsing frá Þór: Þungbær en réttmætur úrskurður
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner