fös 24. júní 2022 18:56
Brynjar Ingi Erluson
Fyrirliði Derby: Rooney þarf að vernda orðspor sitt
Curtis Davies
Curtis Davies
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Curtis Davies, fyrirliði Derby County á Englandi, segist skilja ákvörðun Wayne Rooney um að hætta með liðið en það verður mikill söknuður af honum.

Rooney sagði starfi sínu lausu í dag eftir að hafa stýrt liðinu síðasta eina og hálfa árið.

Starf Rooney var langt í frá auðvelt en félagið var sett í greiðslustöðvun á síðasta tímabili og 21 stig dregið af liðinu í ensku B-deildinni.

Hópurinn var þunnur en samt náði stjórinn að púsla saman ágætis liði sem náði þokkalegum árangri miðað við aðstæður. Liðið féll vissulega niður í C-deildina en liðið sýndi allt tímabilið að það átti ekki heima í fallbaráttu.

„Þetta er enn eitt áfallið fyrir Derby County. Vinur minn sagði mér þetta þegar ég var á rúntinum. Ég hélt að hann vildi bara spjalla en hann var að hringja í mig til að segja mér fréttirnar. Þetta var mikið áfall en ég get ekki áfellst stjórann eftir allt sem gerðist á síðasta ári. Hann sýndi okkur hollustu þegar hann þurfti þess ekki," sagði Davies.

„Ég hélt að hann yrði áfram með okkur en miðað við hvað það hefur tekið langan tíma að fá mál Derby á hreint og hvað hann hefur haft lítinn tíma til að skipuleggja næsta tímabil þá skil ég þetta. Það er einn mánuður í tímabilið og við erum bara með fimm leikmenn. Hann stórbætti orðspor sitt sem þjálfari liðsins á síðasta tímabili og kannski vildi hann vernda það orðspor. Ég vil þakka honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir okkur og það sama á við um aðra leikmenn og stuðningsmenn félagsins."

Davies vill að Liam Rosenior taki við þjálfun liðsins en hann var aðstoðarmaður Rooney hjá Derby.

„Eina manneskjan sem ég sé fyrir mér sem næsta stjóra liðsins er Liam Rosenior. Hann er stór hluti af þessu félagi og ef við viljum halda áfram með sömu jákvæðni og á síðasta ári og svipaðan leikstíl og við spiluðum þá er hann maðurinn sem ég myndi ráða sem næsta stjóra," sagði Davies.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner