fös 24. júní 2022 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kjartan Henry vonast eftir epli en ekki bananahýði
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður KR, var til viðtals eftir leikinn gegn Breiðabliki. Í viðtalinu var hann spurður út í leik KR og Njarðvíkur í 16-liða úrslitum Mjólkubikarsins. Liðin mætast á sunnudagskvöld á Rafholtsvellinum, heimavelli Njarðvíkur.

„Nei, þetta verður ekki auðvelt. Við fengum mjög erfiðan drátt: Njarðvík í Njarðvík. Þeir eru búnir að vera á flugi og eru með hörku-hörkulið, 1. deildar lið skilst mér. Við þurfum heldur betur að vera klárir í það því þetta er stór leikur fyrir okkur," sagði Kjartan.

„Bananahýði?" spurði Arnar Laufdal sem fjallaði um leikinn í gær hér á Fótbolta.net.

Kjartan skildi ekki spurninguna. „Hvað segiru?" sagði Kjartan og Arnar endurtók spurninguna. „Hvað ertu að meina?" spurði Kjartan og fékk nánari útskýringu.

Þegar lið sem ekki er að spila vel dregst á móti liði úr neðri deild á útivelli þá eru möguleikar á óvæntum úrslitum, að stærra liðið detti úr leik. Talað er um slíka leiki sem mögulega bananahýðisleiki. Hver hefur ekki séð atriði þar sem aðili stígur á bananahýði og flýgur á hausinn?

„Bananahýði. Nei, ég vona ekki. Bara epli eða eitthvað," sagði Kjartan léttur.



Þetta er ekki í fyrsta sinn í sumar sem upp kemur skemmtilegt atriði þegar Arnar ræðir við Kjartan eftir leik. Fyrr í sumar bauðst Kjartan til að halda á myndavélinni fyrir Arnar.

Sjáðu: Kjartan Henry bauðst til að hjálpa með myndavélina

Er aldrei þannig í bikar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var einnig spurður út í leikinn gegn Njarðvík.

„Það eru allir fótboltaleikir erfiðir, skiptir engu máli við hvern þú ert að spila. Við vitum að Njarðvík sigraði Keflavík 4-1 í síðustu umferð. Við erum ekkert að fara þangað og halda að við séum að fara leika okkur að þeim. Það verður aldrei þannig, er aldrei þannig í bikar og við þurfum að undirbúa okkur ofboðslega vel, jafnvel og við undirbjuggum okkur fyrir þennan leik þó að það hafi ekki allt heppnast. Vonandi heppnast meira á sunnudaginn, við förum þangað brattir. Við erum að fara í aðra keppni sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli, við viljum fara áfram og við þurfum að leggja 100% vinnu í það," sagði Rúnar.
Rúnar Kristins: Seinni hálfleikur var alltaf að fara að verða erfiður
Athugasemdir
banner
banner