fös 24. júní 2022 21:31
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Kristall Máni skaut Víkingum áfram - Mæta Malmö í fyrstu umferð
Kristall Máni Ingason gerði sigurmarkið með skalla
Kristall Máni Ingason gerði sigurmarkið með skalla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Milos Milojevic er þjálfari Malmö og mætir því sínu gamla félagi, Víkingi.
Milos Milojevic er þjálfari Malmö og mætir því sínu gamla félagi, Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Inter Escaldes 0 - 1 Víkingur R.
0-1 Kristall Máni Ingason ('69 )
Lestu um leikinn

Víkingur R. er komið áfram í 1. umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið Inter Escaldes frá Andorra, 1-0, á Víkingsvellinum í kvöld.

Heimamenn voru virkilega slakir framan af fyrri hálfleiks og sendingar að klikka út um allan völl. Gestirnir voru fjölmennir til baka og réðu ágætlega við Víkinga.

Inter Escaldes var nálægt því að komast yfir á 35. mínútu en tilraun Sascha Andreu rúllaði rétt framhjá stöng heimamanna.

Nokkrum mínútum síðar var Ahmed Belhadji hársbreidd frá því að koma Inter yfir en skalli hans fór beint á Þórð Ingason í markinu. Algert dauðafæri fyrir Inter og Víkingar sofandi í vörninni.

Víkingar skiptu yfir í 4-3-3 í hálfleik og Halldór Smári Sigurðsson fór því í vinstri bakvörðinn.

Þegar hálftími var eftir af leiknum vildu Víkingar fá vítaspyrnu en fengu ekki er Viktor Örlygur Andrason var tekinn niður. Þegar atvikið var skoð nánar átti það sér stað rétt fyrir utan teiginn og hefði því verið aukaspyrna, en það breytti litlu þar sem dómarinn létt flautuna vera.

Víkingar fóru að vinna sig betur inn í leikinn og fékk Nikolaj Hansen frábært færi sex mínútum síðar eftir fyrirgjöf Karls Friðleifs Gunnarssonar en skalli Hansen fór rétt framhjá markinu.

Það dró svo til tíðinda á 69. mínútu. Kristall Máni Ingason gerði þá sigurmark heimamanna. Aftur var það Karl Friðleifur með fyrirgjöfina og nú var það Kristall sem var mættur í teiginn til að stanga boltann í netið.

Þegar fimmtán mínútur voru eftir gátu Víkingar aukið forystuna en Hansen skaut rétt framhjá eftir laglega sendingu frá Ara Sigurpálssyni.

Frammistaðan var ekkert sérstök hjá Víkingum í kvöld en dugði þó til að komast í 1. umferð í forkeppninni og mætir liðið þar lærisveinum Milos Milojevic í Malmö. Það verður skemmtileg viðureign en hann var aðalþjálfari Víkings frá 2015 til 2017.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner