mán 24. september 2018 10:30
Ívan Guðjón Baldursson
Ranieri finnur til með þjálfara Roma
Mynd: Getty Images
Ítalski stjórinn Claudio Ranieri segist finna til með Eusebio Di Francesco, þjálfara AS Roma.

Roma hefur ekki farið vel af stað á tímabilinu eftir frábært síðasta tímabil þar sem liðið komst óvænt alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Roma seldi Alisson, Radja Nainggolan og Kevin Strootman í sumar en Di Francesco virðist ekki hafa náð að fylla í skarðið þrátt fyrir komu Justin Kluivert, Steven Nzonzi, Bryan Cristante og Javier Pastore meðal annarra.

„Di Francesco er einn af bestu þjálfurum ítalska boltans. Hann var frábær hjá Sassuolo og átti svo magnað tímabil með Roma en núna er hann búinn að missa burðarstólpa liðsins," sagði Ranieri.

Roma er aðeins með fimm stig eftir fimm umferðir í ítalska boltanum og átti ekki roð í Real Madrid í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það er að hitna undir Di Francesco þó að tímabilið sé nýbyrjað en Ranieri vonar að honum verði gefinn tími til að rétta úr kútnum.

„Núna þarf hann að ná því besta úr leikmannahópnum. Ég vona að hann fái tíma og frelsi til að gera það sem hann þarf. Di Francesco vissi hvað hann var að koma sér út í þegar hann skrifaði undir hjá Roma. Þetta er félag sem hefur verið að selja bestu leikmenn sína ár eftir ár.

„Það bjóst enginn við að Roma myndi gera svona góða hluti á síðasta tímabili og það er vandamál með stuðningsmennina, þeir þurfa að standa bakvið liðið í blíðu og stríðu sama hvað stjórnin gerir."


Ranieri komst afar nálægt því að vinna Ítalíumeistaratitilinn með Roma árið 2010 en Diego Milito, sóknarmaður Inter, hafði aðrar hugmyndir og tryggði sínum mönnum titilinn í 0-1 sigri gegn Siena á lokadegi tímabilsins.
Athugasemdir
banner
banner