mán 25. mars 2019 14:30
Arnar Daði Arnarsson
Hin hliðin - Stefán Birgir Jóhannesson (Njarðvík)
Stefán Birgir í leik með Njarðvík síðasta sumar.
Stefán Birgir í leik með Njarðvík síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Í dag er komið að því að Stefán Birgir Jóhannesson leikmaður Njarðvíkur í Inkasso-deildinni sýni á sér hina hliðina.

Stefán Birgir er uppalinn í ÍR en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik sumarið 2012 með Fram. Hann hefur einnig leikið með Leikni R. en undanfarin ár hefur hann leikið með Njarðvík.


Fullt nafn: Stefán Birgir Jóhannesson

Gælunafn: Burgerinn

Aldur: 26 ára gamall

Hjúskaparstaða: Í sambandi

Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki: Kom inn á í heilar 7 mínútur í Lautinni 2012 í 1-0 tapi. Byrjaði svo bikarleik sama ár, spilaði 90 mínútur og svaf svo yfir mig í næsta leik. Minnir að Toddi hafi sett mig alveg 5 fet af 6 undir torfu þegar ég mætti á æfingu daginn eftir. Sennilega eitt þægilegasta samtal sem ég hef átt.

Uppáhalds drykkur: Venjulega kók takk, þvílík synd að súperdósinn sé farin af markaðnum. RIP.

Uppáhalds matsölustaður: Olsen Olsen og Villi eru þetta klassíska hérna fyrir sunnan en ef að menn hafa ekki prófað tilboð 1 á skýlinu + krullu franskar og kokteil þá eru þeir að spila þetta vitlaust, það er alvöru sviti í gangi þar.

Hvernig bíl áttu: Toyota Yaris, ekinn 108.000 km, 2015 árgerð. Til sölu á 900 þúsund. Hægt að skoða hann á Bílaútsölunni í Keflavík, Áhugasamir hringi í: 421-5444 og biðji um að fá að tala við Forsetann.

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Peaky Blinders

Uppáhalds tónlistarmaður: Hnetan í stuði, Bubbi í kósý.

Uppáhalds samskiptamiðill: Twitter, Bubbi er reyndar kóngurinn þar líka ef út í það er farið.

Fyndnasti Íslendingurinn: Bergur Ebbi by a mile. Mér finnst King Mike Brown reyndar geggjaður í Dr. Football. Shoutout á þann útvarpsþátt frá mér og forsetanum.

Hvað viltu í bragðarefinn þinn: 2x jarðarber og cookie dough

Hvernig hljómar síðasta sms sem þú fékkst: “I’d like to describe and show in more detail what I was doing and what I came up with at the last car rental I worked at that would benefit any car rental”. Ég vinn á bílaleigu og þessi meistari ætlar víst að breyta leiknum, hef reyndar ekki svarað honum ennþá ef út í það er farið.

Hvaða liði myndir þú aldrei spila með: Ég myndi aldrei spila með Manchester United, af augljósum ástæðum.

Besti leikmaður sem þú hefur mætt: Atli Freyr Ottesen Pálsson, ég meina gæjinn hefur heilsað Zanetti og setið á bekknum á San Siro, svo er hann stundum með strípur líka. Mér finnst Óskar Örn Hauksson líka ágætur í fótbolta, hann er reyndar ekki með neinar strípur.

Besti þjálfarinn sem hefur þjálfað þig: Haukur Hilmarsson flugmaður hjá Icelandair. Snorri aðstoðarþjálfari er reyndar alltaf að segja að hann sé besti þjálfarinn á Íslandi en hann er stundum svolítið ýktur.

Mest óþolandi leikmaður sem þú hefur mætt: Andri Fannar Freysson í gírnum á æfingu, óþolandi góður.

Sætasti sigurinn: 3-2 út í Garði 2017 þar sem við tryggðum okkur upp. Skemmtilegt að segja frá því að Arnór Björnsson sem hafði þetta tímabil spilað 20 leiki sem fremsti maður í efsta liði deildarinnar hafði ekki skorað eitt einasta fótboltamark þegar að við löbbuðum inn í þennan leik. Hann henti svo bara í volley af 30 metrunum sláin inn og tryggði sigur, djöfull var það leiðinlegt.

Mestu vonbrigðin: Að Hörður Fannar Björgvinsson hafi hætt í fótbolta, það er hægt að finna þann markmann í lappir. Þar að auki er hann kóngur utan vallar, venlig hilsen til Denmark Hörður.

Uppáhalds lið í enska: Liverpool

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í þitt lið: Hilmar Árni Halldórsson, bestur.

Fyrsta verk ef þú yrðir formaður KSÍ: Mér líður bara ágætlega vel bara.

Efnilegasti knattspyrnumaður/kona landsins: Davíð Snær Jóhannsson

Fallegasti knattspyrnumaðurinn á Íslandi: Auðvelt, Sigurður Hrannar Björnsson.

Fallegasta knattspyrnukonan á Íslandi: Eva Sif Gunnarsdóttir sem lagði skónna á hilluna 2012, það var alvöru bakvörður.

Besti knattspyrnumaðurinn frá upphafi: Steven Gerrard, ég er litaður af samfélaginu biðst afsökunar á því. Besti Íslenski leikmaðurinn Haukur Ingi Guðnason af sömu ástæðu.

Hver er mesti höstlerinn í liðinu: Við erum eiginlega allir komnir á fast þannig ég ætla ekki að gera yfir höstlerunum það að nefna þá hér á nafn. Krystian Wiktorowicz hendir reyndar reglulega í myndir af lærunum á sér á Instagram, gefum honum þetta.

Uppáhalds staður á Íslandi: Skeiðar í Hrunamannahrepp

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik: Huginn – Njarðvík 06.05.2017, fyrsti leikur í Íslandsmótinu. Ég er gríðarlega flughræddur maður og keyri yfirleitt í leiki sem að eru úti á landi. Ég, Hörður Fannar Björgvinsson, Theodór Guðni Halldórsson og Arnar Helgi Magnússon keyrðum saman í þennan leik. Stoppuðum á Djúpavogi kvöldið áður og gistum. Á leikdag keyrum við af stað og ætluðum að fara yfir Öxi inn á Egilsstaði. Yours truly var við stýrið og tók hægri beygjuna einum afleggjara of snemma. Við höfðum að sjálfsögðu ekki hugmynd um það fyrr en við komum að á, þá áttuðum við okkur á að við gætum hugsanlega, mögulega verið á rangri leið. Við tökum þá ákvörðun að snúa við og sprengjum 2 dekk í viðsnúningnum. Beint á google maps, þá sjáum við að vegurinn er bara mjög stutt frá okkur til hægri, lítum til hægri og þar er ca 150m hátt fjall. Við löbbuðum af stað og vorum líklega í góða 2 tíma upp á fjallið, við tekur þverhnípt bjarg sem við komumst á endanum niður fyrir. Þar bíður okkar straumþung á, við vöðum hana hönd í hönd og upp á veginn sem að liggur yfir Öxi. Þá eru 15 mínútur í leik. Við hlaupum upp á veg, stoppum næsta bíl sem að var mannaður af tveimur kínverjum. “we need you to drive us to Egilsstaðir, we have a match there and we are already late”. Blessunarlega voru þau tilbúin að taka einn yfirfarþega og tóku okkur upp í. Þarna sátum við fjórir aftur í og lagið “Nine million bicycles – Katie Melua”. Við vorum ca 5 cm á hæð í bílnum en komumst á leiðarenda. Við settumst á bekkinn, 20 mínútur búnar af leiknum sem við áttum allir að byrja. Við komum svo allir inn á nema Hörður, hann fékk sykurfall á bekknum…

Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Ég reyni að taka af mér gleraugun með misjöfnum árangri.

Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum: Mér finnst Dominos deildin í Körfubolta gjörsamlega geggjuð.

Í hvernig fótboltaskóm spilar þú: Nike Hypervenom

Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla: Stærðfræði

Uppáhalds Eurovision lag frá upphafi: Olsen Brothers – Fly on the wings of love, what a tune.

Vandræðalegasta augnablik: Líklega þegar ég baunaði yfir Böðvar Böðvarsson aka Bödda löpp á eitthverjum facebook status. Ég held að ég sé ennþá að skeina mér eftir þá skitu. Þú ert topp maður Böðvar, biðst afsökunar.

Hvaða þrjá leikmenn tækir þú með þér á eyðieyju: Miðað við fyrri reynslu og sjálfsbjörgunar viðleitni þá verð ég að velja Hörð, Theodór og Arnar. Það er komin reynsla á það teymi og hún gæti reynst dýrmæt í þessum aðstæðum.

Sturluð staðreynd um sjálfan þig: Ég er litblindur og á mjög erfitt með það þegar það eru notuð gul og appelsínugul vesti á æfingum. Vildi bara opna umræðuna..
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner