Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 25. mars 2021 18:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
EM U21: Gífurlega slakt í fyrsta leik
Icelandair
Sveinn Aron skoraði mark Íslands í leiknum.
Sveinn Aron skoraði mark Íslands í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arsen Zakharyan reyndist Íslendingum erfiður.
Arsen Zakharyan reyndist Íslendingum erfiður.
Mynd: Getty Images
Rússland U21 4 - 1 Ísland U21
1-0 Fedor Chalov ('31 , víti)
2-0 Nayair Tiknizyan ('42 )
3-0 Arsen Zakharyan ('45 )
4-0 Denis Makarov ('53 )
4-1 Sveinn Aron Guðjohnsen ('59 )
Skoðaðu textalýsingu frá leiknum

Íslenska U21 landsliðið byrjar Evrópumótið eins og fyrir tíu árum; á tapi. Fyrir tíu árum töpuðum við fyrir Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik en í dag töpuðum við mjög sannfærandi gegn Rússum.

Það var stress í íslenska liðinu til að byrja með á meðan Rússarnir voru ákveðnir. Rússarnir tóku forystuna eftir rúmlega hálftíma leik er Fedor Chalov skoraði af öryggi af vítapunktinum. Róbert Orri Þorkelsson braut af sér innan teigs eftir röð mistaka í vörn Íslands.

Stefán Teitur Þórðarson átti ágætis tilraun á 38. mínútu en fram hjá markinu. Stuttu eftir það gengu Rússarnir frá leiknum.

Nayair Tiknizyan kom Rússum í 2-0 eftir frábæra sókn hjá þeim og fyrir leikhlé skoraði hinn 17 ára gamli Arsen Zakharyan þriðja markið. Sá er aðeins 17 ára gamall og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.

Íslenska liðið mætti ekki sérlega vel í seinni hálfleik og Rússarnir héldu bara áfram þar sem frá var horfið. Denis Makarov fór illa með vörn Íslands og skoraði auðveldlega. Alltof auðvelt. „Rússarnir eru að leika sér að okkar strákum," skrifaði Elvar Geir Magnússon í beinni textalýsingu.

Ísland náði aðeins að bíta frá sér. Sveinn Aron Guðjohnsen minnkaði muninn þegar tæpur klukkutími var liðinn af leiknum. Willum Þór Willumsson átti frábæra sendingu inn á teiginn og Sveinn Aron skoraði með skalla.

Rússarnir sigldu sigrinum þægilega heim og lokatölur 4-1 í þessum fyrsta leik Íslands á mótinu. Fyrir tíu árum síðan tapaði íslenska liðið fyrir Sviss í leiknum á eftir og vann svo Danmörku í lokaleiknum. Þá var liðið hársbreidd frá því að komast áfram.

Hvað gerist næst?
Ísland mætir Danmörku á sunnudag og Frakklandi á miðvikudag. Það eru sterkari lið ef eitthvað er. Ísland þarf mikið, mikið, mikið betri frammistöðu í þeim leikjum. Tvö efstu liðin úr riðlinum komast áfram í átta-liða úrslit. Möguleikarnir eru ekki góðir eftir tap í fyrsta leik.


Athugasemdir
banner
banner
banner