Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 25. mars 2021 23:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Vissum að þetta yrði erfiðasti leikurinn í riðlinum"
Icelandair
Arnór með Emre Can á bakinu.
Arnór með Emre Can á bakinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður í leiknum.
Hörður í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon, liðsfélagar í CSKA Moskvu, sátu fyrir svörum á blaðamannafundi, eftir 3-0 tap gegn Þýskalandi í fyrsta leik í undankeppni HM 2020.

Ísland lenti 2-0 undir strax á sjöundu mínútu og það var erfitt fyrir liðið að koma til baka eftir það.

„Þetta var mjög erfiður leikur. Það var leiðinlegt að þeir skoruðu tvö mörk á fyrstu 15 mínútum leiksins. Við gerðum mjög vel eftir það. Auðvitað söknum við margra leikmanna en við gerðum vel í ýmsu. Við gerðum mistök í þessum fyrstu tveimur mörkum," sagði Hörður.

„Þjóðverjarnir voru góðir í dag og nýttu sér okkar mistök," sagði Arnór.

„Það er erfitt að koma til baka á móti svona liði. Við reyndum að gera eitthvað en það dugði ekki. Mér fannst við vera mun betri í seinni hálfleik. Við náðum að verjast betur og pressa aðeins meira á þá. Þeir gerðu rosalega vel og það er ekkert hægt að taka frá þeim með það."

Þýskaland spilaði með Serge Gnabry, Kai Havertz og Leroy Sane í fremstu víglínu. Hörður fékk það verðuga verkefni að kljást við þessa stórkostlegu leikmenn.

„Það er alltaf skemmtilegt að fá tækifæri til að spila á móti þeim bestu. Það er gaman fyrir okkur Íslendinga að spila við svona sterkt lið. Persónulega vill maður standa sig vel og sýna góða varnarvinnu gegn þeim. Maður er mest svekktur yfir fyrstu tveimur mörkunum. Það er alltaf skemmtilegt að fá að spila á móti þeim bestu," sagði Hörður.

Þetta er fyrsta verkefni nýrra landsliðsþjálfara en það eru tveir leikir eftir í þessu einvígi; gegn Armeníu á sunnudag og gegn Liechtenstein næsta miðvikudag.

„Þjálfararnir hafa komið mjög vel inn í þetta og mér persónulega og liðinu líst vel á þetta. Það eru tveir mikilvægir leikir framundan sem við þurfum að vera klárir í," sagði Arnór.

„Við vissum að þetta yrði erfiðasti leikurinn í riðlinum. Eitt stig hefði verið sigur fyrir okkur. Við töpuðum en okkar haus núna er á næstu tvo leiki, það er hugsun okkar að við verðum að taka sigur í þeim báðum. Það er ekkert vanmat, við förum í hvern einasta leik til að vinna. Það eru sterk lið í riðlinum og þetta er skemmtilegur riðill. Við eru bjartir fyrir næstu leiki," sagði Hörður.

„Við ætluðum að koma og sækja eitthvað úr þessum leik. Við höfðum trú á því en við vissum að Þýskaland er besta liðið í þessum riðli fyrir fram. Það er enginn heimsendir þó að við höfum tapað þessum leik en við viljum auðvitað alltaf gera vel og gera betur. Við þurfum að læra af þessum leik og horfa fram veginn," sagði Arnór.
Athugasemdir
banner
banner