lau 25. apríl 2020 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Zlatan segir skemmdarvarga eins og „leikskólabörn"
Kveðst hafa gefið Malmö 1,46 milljarða
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic.
Mynd: Getty Images
Zlatan hefur tjáð sig um skemmdarverk sem framin hafa verið á styttu sem var af honum í Malmö.

Malmö er heimaborg Zlatan en stytta var af honum fyrir utan heimavöll fótboltafélags borgarinnar. Hún varð fyrir fjölmörgum skemmdarverkum eftir að Zlatan keypti hlut í Hammarby, erkifjendum Malmö og var að lokum fjarlægð.

Zlatan hefur sagt að hann vilji gera Hammarby að stærsta liði Skandinavíu.

Zlatan segir í samtali við DPlay að skemmdarvargarnir hagi sér eins og leikskólabörn. „Þeir vilja athygli og vilja að fjölmiðlar skrifi um þetta. Þeir haga sér eins og leikskólabörn."

Sóknarmaðurinn segist hafa gefið Malmö 100 milljónir sænskra króna, rúmlega 1,46 milljarða íslenskra króna. „Ég spilaði fyrir Malmö og gerði það sem ég gerði fyrir Malmö þrátt fyrir að þeir hafi ekkert viljað með mig að gera.

Zlatan, sem er 38 ára, er á mála hjá AC Milan en hefur verið að æfa með Hammarby vegna kórónuveirufaraldursins. Hann stefnir á að spila eins lengi og hann getur. „Ég vil spila fótbolta eins lengi og og ég get, og leggja mitt af mörkum. Ég vil ekki bara spila út af því sem ég hef gert í gegnum ferilinn minn."

Athugasemdir
banner
banner
banner