banner
   mán 25. júní 2018 20:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Var heimilislaus um tíma en varði í kvöld víti frá Ronaldo
Alireza Beiranvand.
Alireza Beiranvand.
Mynd: Getty Images
Markvörðurinn Alireza Beiranvand á eftir að muna eftir mánudagskvöldinu 25. júní allt sitt líf. Í kvöld spilaði hann landsleik með Íran á HM í Rússlandi gegn Portúgal. Hann stóð sína plikt í markinu og gerði sér lítið og varði víti frá Cristiano Ronaldo, einum besta fótboltamanni sögunnar.

Leikurinn endaði 1-1 en með sigri hefði Íran farið upp úr riðlinum á kostnað Portúgals. Íran var hársbreidd frá því að vinna en þeir klúðruðu dauðafæri undir lokin.

Saga Alireza er ótrúleg
Þegar Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu Lionel Messi í jafntefli Íslands og Argentínu þann 16. júní síðastliðinn komst það í heimsfréttirnar að Hannes væri einnig leikstjóri og hefði leikstýrt Coca Cola auglýsingu fyrir mótið.

Sjá einnig:
Hannes hætti næstum í fótbolta eftir meiðsli við kvikmyndagerð

Saga Hannesar er mögnuð en saga Alireza er það líka, örugglega enn magnaðari en saga íslenska markvarðarins.

Í viðtali við The Guardian fyrir mótið lýsir hann því þegar hann strauk að heiman aðeins 12 ára gamall til þess að elta draum sinn að verða atvinnumaður í fótbolta. Hann var heimilislaus um tíma en komst svo að hjá fótboltaliði. Hann var í mörgum vinnum þegar hann var yngri og vann meðal annars á bílaþvottastöð þar sem hann var sérfræðingur í að þrífa stóra jeppa vegna hæðar sinnar.

Alireza elti draum sinn og gerðist atvinnumaður. Hann er í dag á mála hjá Persepolis og var í kvöld að verja víti frá einum besta fótboltamanni sögunnar, gríðarlega áhrifamikil saga.



Athugasemdir
banner
banner
banner