lau 25. júní 2022 12:00
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Vildi einbeita sér að Bolton - Stressaður að fá símtalið frá Arnari
Mynd: KSÍ

Jón Daði Böðvarsson framherji Bolton og íslenska landsliðsins gaf ekki kost á sér í síðasta landsliðsverkefni gegn Ísrael og Albaníu í Þjóðadeildinni og æfingaleik gegn San Marínó í byrjun júní.


Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari ræddi ákvörðun framherjans á fréttamannafundi þegar landsliðshópinn var kynntur í maí. 

„Þetta verkefni fellur mjög illa fyrir Jón Daða og maður þarf sem þjálfari að geta tekið því að leikmennirnir þurfa líka að kjósa sinn feril og sína fjölskyldu." Sagði Arnar.

Jón Daði var til viðtals hjá The Bolton News þar sem hann ræddi ákvörðunina.

„Ég verð að vera hreinskilinn, ég var stressaður að fá þetta símtal. Ég vildi ekki valda liðinu vonbrigðum. Ég veit að ég er mikilvægur og reynslumikill leikmaður svo þetta var ekki auðveld ákvörðun. En hann tók þessu mjög, mjög vel og ég ber virðingu fyrir því," sagði Jón Daði.

Ísland lýkur keppni í Þjóðadeildinni þann 27. september þegar liðið mætir Albaníu á útivelli. Arnar sagðist vonast til að Jón Daði verði klár í slaginn þá. Framherjinn er opinn fyrir því.

„Hann sagði að hann ætlaði að heyra aftur í mér í september. Ég er alltaf stoltur af því að spila fyrir þjóðina, manni dreymir um það þegar maður var krakki."

„Ég þurfti frí, andlega, þetta tímabil var búið að vera mikill rússíbani, svart og hvítt, mikið um að vera og það er stórt tímabil framundan. Ég sé ekki eftir neinu," sagði Jón Daði.

Það var mikið álag á honum undir lok tímabilsins með Bolton.

„Við spiluðum fjóra leiki á 15 dögum. Arnar skildi það að ég hafi bara verið nýkominn til Bolton. Þetta er stórt félag og mikilvægt tímabil framundan, ég vildi ekki meiðast þar sem ég á bara ár eftir svo aðal atriðið á þessum tímapunkti er að fókusa á Bolton."

Jón Daði skoraði sjö mörk í 21 leik fyrir Bolton en liðið hafnaði í 9. sæti í þriðju efstu deild á Englandi.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner