mið 25. ágúst 2021 20:02
Brynjar Ingi Erluson
Pepsi Max-deildin: Blikar á toppinn - KR vann upp á Skaga
Kristinn Steindórsson skoraði og lagði upp í kvöld
Kristinn Steindórsson skoraði og lagði upp í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Henry kom að báðum mörkum KR
Kjartan Henry kom að báðum mörkum KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er komið í efsta sæti Pepsi Max-deildar karla eftir 2-0 sigur á KA á Akureyri en eftir markalausan fyrri hálfleik tókst Blikum að klára dæmið á fyrstu tíu mínútunum í þeim síðari. KR-ingar unnu þá ÍA 2-0 á Akranesi á meðan FH gerði markalaust jafntefli við Keflavík í Kaplakrika.

Það var erfið fæðing hjá Blikum á Akureyri í kvöld. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og ekki mikið um opin færi en það breyttist allt í byrjun þess síðari.

Kristinn Steindórsson skoraði strax í upphafi síðari hálfleiks með skalla eftir fyrirgjöf frá Höskuldi Gunnlaugssyni. Ívar Örn Árnason átti í erfiðleikum með að hreinsa boltann frá og komst Gísli Eyjólfsson í boltann, lagði hann út á Höskuld sem kom honum fyrir markið. Kristinn var þar mættur og náði að stýra boltanum með höfðinu í netið.

Árni Vilhjálmsson tvöfaldaði forystuna á 55. mínútu. Kristinn stakk honum inn fyrir vörn KA-manna og átti Árni ekki í vandræðum með að skora.

Glæsilegur sigur Blika á Akureyri og annar sigurinn í röð á KA-mönnum og liðið nú á toppnum með 38 stig þegar fjórir leikir eru eftir.

FH og Keflavík gerðu markalaust jafntefli í Kaplakrika. Það voru gestirnir sem voru að skapa sér færin í fyrri hálfleik þrátt fyrir að FH-ingar voru meira með boltann.

Keflavík skapaði sér tvö mjög góð færi í þeim síðari. Adam Árni Róbertsson átti fyrst skot í utanverðastöngina og þá fékk Christian Volesky algert dauðafæri til að koma liðinu yfir en brást bogalistin.

Eggert Gunnþór Jónsson átti þrumuskot í slá nokkrum augnablikum síðar en inn vildi boltinn ekki. FH-inga áttu góðan kafla í sókninni en náðu ekki að nýta það og lokatölur 0-0 í Krikanum.

Skagamenn eru þá áfram í miklum vandræðum eftir 2-0 tap á heimavelli fyrir KR. Gestirnir komust yfir á 14. mínútu er Kjartan Henry Finnbogason skoraði. Markið var umdeilt en Kjartan virtist brjóta á Guðmundi Tyrfingssyni í aðdragandanum og vildu Skagamenn fá brot en fengu ekki.

Nokkrum mínútum síðar var Kennie Chopart nálægt því að bæta við öðru úr aukaspyrnu. Skot hans fór í slá og niður en KR-ingar héldu því fram að boltinn hefði farið inn fyrir línuna.

Viktor Jónsson kom sér í gott færi undir lok fyrri hálfeiks til að jafna en skot hans fór framhjá. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir KR og ekki byrjaði það vel fyrir Skagamaenn í seinni.

Guðmundur kom boltanum í eigið net eftir sendingu frá Kjartani Henry. Guðmundur ákvað að renna sér á boltann, með mann í bakinu, en varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Ægir Jarl Jónasson átti skot í slá undir blálokin áður en flautað var til leiksloka. 2-0 sigur KR staðreynd og liðið í fjórða sæti með 32 stig en ÍA á botninum með 12 stig.

Úrslit og markaskorarar:

FH 0 - 0 Keflavík
Lestu um leikinn

KA 0 - 2 Breiðablik
0-1 Kristinn Steindórsson ('46 )
0-2 Árni Vilhjálmsson ('55 )
Lestu um leikinn

ÍA 0 - 2 KR
0-1 Kjartan Henry Finnbogason ('14 )
0-2 Guðmundur Tyrfingsson ('50 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner