þri 25. september 2018 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í Inkasso: Lokahófið verður sennilega nokkuð skrautlegt
Gunnar Örvar Stefánsson (Magni)
Gunnar Örvar í leik með Magna í sumar.
Gunnar Örvar í leik með Magna í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var skemmtilegt að bjarga sætinu á þennan hátt, í síðasta leik tímabilsins. Tilfinningin eftir leik var alveg stórkostleg," segir Gunnar Örvar Stefánsson, sóknarmaður Magna, en hann er leikmaður lokaumferðarinnar í Inkasso-deildinni.

„Það er alltaf gaman að skora, sérstaklega í svona mikilvægum leik eins og þessum."

Gunnar Örvar skoraði tvennu þegar Magni vann ÍR 3-2 í lokaumferðinni. Þetta var hreinn úrslitaleikur um sæti í deildinni en Magni þurfti á sigri að halda. Magni hafði verið í fallsæti í mestallt sumar áður en kom að leiknum.

„Það voru allir í hópnum vel undirbúnir og klárir í þennan mikilvægasta leik Magna Grenivíkur frá upphafi. Við vorum ekkert sérlega ánægðir með fyrri hálfleikinn, en vorum samt sem áður í fínni stöðu í hálfleik (2-2). Við töluðum um það í hálfleik að bæta í þegar í seinni hálfleikinn var komið og í rauninni fannst mér þetta aldrei spurning í síðari hálfleiknum."

Hvernig var fagnað eftir leikinn?

„Eftir leik keyrðum við bara heim og þar bauð Palli Gísla (þjálfari liðsins) mönnum í partý þar sem var fagnað. Um næstu helgi verður svo formlegt lokahóf, það verður sennilega nokkuð skrautlegt."

Mikil meiðsli
Gunnar Örvar er búinn að vera töluvert meiddur í sumar en hefur samt skorað níu mörk í 19 leikjum.


„Ég er búinn að vera töluvert meiddur í sumar og það hafa aðallega verið höfuðhögg sem hafa verið að stríða mér í sumar. Ég missti af fyrsta leik tímabilsins gegn HK eftir höfuðhögg sem ég fékk í bikarleik gegn Fjölni. Ég fór of snemma af stað í öðrum leik gegn Haukum og þarf að fara af velli á 20. mínútu. Ég missti þar af leiðandi af leik gegn Víkíngi Ólafsvík í þriðju umferð. Ég kem inn á síðustu 10 mínúturnar gegn Selfossi í fjórðu umferð og næ eftir það að spila alla leiki þar til ég fer í bann í 17. umferð. Ég fæ svo annað höfuðhögg á Þórsvelli í 18. umferð og fer af velli eftir 25 mínútur. Ég næ að koma inn síðasta korterið gegn ÍA í 19. umferð og klára síðustu þrjá leikina eftir það."

„Þannig að ég næ bara að spila 15 heila leiki. Sem betur fer er engin varanlegur skaði eftir þessi höfuðhögg."

„Ég persónulega er ágætlega sáttur með mitt tímabil þó ég hefði viljað gera meira en meiðsli settu strik í reikninginn."

„Leikmenn og þjálfarar eru örugglega sáttir við að halda sætinu í deildinni úr því sem komið var, þó svo að við höfum ætlað okkur stærri hluti fyrir tímabil. Það var mikilvægt að halda klúbbnum í deildinni og byggja ofan á tímabilið sem var að líða."

Á eftir að setjast niður með stjórninni
Mikill uppgangur er í fótboltanum á Grenivík. Ætlar Gunnar Örvar að vera þar áfram?

„Ég er samningslaus eftir tímabil og á eftir að setjast niður með stjórninni og skoða málin."

„Það er gríðarlegur uppgangur á Grenivík. Núna er verið að byggja klefaaðstöðu svo það þurfi ekki alltaf að loka sundlauginni á leikdögum, það er stór plús. Magni er frábær klúbbur, fullt af fólki sem vill allt fyrir mann gera."

„Planið er að búa til lið sem mun ná að festa sig í sessi sem lið í Inkasso-deildinni á næstu árum."

Fyrri leikmenn umferðarinnar
21. umferð - Alvaro Montejo (Þór)
20. umferð - Brynjar Jónasson (HK)
19. umferð - Stefán Teitur Þórðarson (ÍA)
18. umferð - Arnar Freyr Ólafsson (HK)
17. umferð - Hrvoje Tokic (Selfoss)
16. umferð - Nacho Gil (Þór)
15. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
14. umferð - Emil Atlason (Þróttur R.)
13. umferð - Bjarni Aðalsteinsson (Magni)
12. umferð - Eyjólfur Tómasson (Leiknir R.)
11. umferð - Viktor Jónsson (Þróttur R.)
10. umferð - Arnór Snær Guðmundsson (ÍA)
9. umferð - Emir Dokara (Víkingur Ó.)
8. umferð - Viktor Jónsson (Þróttur R.)
7. umferð - Tiago Fernandes (Fram)
6. umferð - Sólon Breki Leifsson (Leiknir R.)
5. umferð - Guðmundur Axel Hilmarsson (Selfoss)
4. umferð - Alvaro Montejo Calleja (Þór)
3. umferð - Steinar Þorsteinsson (ÍA)
2. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
1. umferð - Ingiberg Ólafur Jónsson (HK)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner