Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
   lau 25. október 2014 12:30
Jón Rúnar Gíslason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Illa farið með Framara
Aðsendur pistill
Jón Rúnar Gíslason
Jón Rúnar Gíslason
Bjarni Guðjónsson.
Bjarni Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Ef ég væri Framari væri ég reiður, svekktur og vonsvikinn. Bjarni Guðjónsson var ráðinn þjálfari fyrir rétt um ári síðan. Það átti að byggja upp. Horfa til framtíðar. Losa sig við dýra útlendinga - við þurfum ekki á þeim að halda! Gæðaleikmenn eins og Almarr Ormarsson og Kristinn Ingi Halldórsson voru á meðal þeirra sem fóru frá bláliðum eftir síðustu leiktíð. Tiltekt sem var nauðsynleg sagði nýráðinn þjálfari sem hafði, þrátt fyrir enga reynslu sem slíkur, óbilandi trú á sjálfum sér. Sjálfstraustið var mikið hjá honum sem leikmaður inni á fótboltavellinum og það sjálfsmat hafði greinilega verið yfirfært á þjálfarahlutverkið.

Bjarni safnar liði eða réttara sagt neðrideildarleikmönnum. Það mætir heill langferðabíll í Safamýrina með ungum og vafalaust í einhverjum tilfellum efnilegum leikmönnum. Óskrifuð blöð í efstu deild. Mikil áhætta. Bjarni veit af því en hefur að sjálfsögðu trú á verkefninu. Jú, gott ef það fylgdu ekki eins og tveir gamlir með. Komnir af léttasta skeiðinu. Útbrunnir myndu einhverjir segja. Þarna átti reynslan að koma inn í hópinn útskýrði þjálfarinn. Þessi blanda er eitruð, jafnvel baneitruð. Allt leit vel út í orðum. Grunlausir Framarar fylgdust með þessum ósköpum í fjarlægð og hafa sumir vafalítið klórað sér í kollvikunum. En það varð að treysta stjóranum í brúnni, hann vissi jú hvað þurfti til svo byggja mætti upp gott lið.

Gerum langa sögu stutta og segjum hana á mannamáli. Fram var í sumar í besta falli ágætis fyrstudeildarlið. Þeir áttu í raun aldrei séns í deild þeirra bestu og það kom fljótlega í ljós. En það var aldrei nein sérstök pressa á þjálfaranum enda átti að hugsa til framtíðar - slakið á, ekkert stress. Framfleyið var byrjað að sökkva, og hafði í raun gert það síðan í október 2013. Kemur árangur sumarsins eitthvað sérstaklega á óvart? Nei, það er tæpast hægt að ljúga því. Pollýanna veit það. Skoðum bara leikskýrslur Framara frá sumrinu og rennum yfir mannskapinn. Einhverjum gæti dottið í hug orð föður þjálfarans sem urðu þekkt um árið - þú býrð ekki til kjúklingasalat úr kjúklingaskít.

Fram er fallið. Skipið sökk. Skipstjórinn virtist missa áhugann strax. Hann gerir sér jú fyllilega grein fyrir að það gæti losnað staða á flottara skipi! Öll framtíðaráform og fyrirheit skipta ekki máli lengur. Bjarni yfirgefur svæðið. Takk fyrir og bless. Má tala um brunarústir? Sviðna jörð? Kapteinninn setti línurnar, hann stökk frá borði. Ekki furða að leikmenn geri það sama. Nú er stóra spurningin sú hvort eigi að fara í svipaðar stefnubreytingar í vesturbænum og var gerð í Safamýri? Nei, ætli hann beri ekki of mikla virðingu fyrir KR. Framarar eiga betra skilið en að liðið þeirra sé notað sem gæluverkefni manna sem flýja svo ábyrgð þegar til kastanna kemur.

Höfundur er knattspyrnuáhugamaður
Athugasemdir
banner
banner
banner