Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 25. október 2020 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Zidane: Munum njóta sigursins eftir mikla gagnrýni
Sergio Ramos hefur verið leikmaður Real Madrid í 15 ár. Hann og Zidane voru samherjar tímabilið 2005-06.
Sergio Ramos hefur verið leikmaður Real Madrid í 15 ár. Hann og Zidane voru samherjar tímabilið 2005-06.
Mynd: Getty Images
Zinedine Zidane var kátur eftir sigur Real Madrid í El Clasico slagnum gegn Barcelona í gær.

Leikurinn hófst með látum og var staðan 1-1 eftir átta mínútur. Staðan hélst jöfn þar til Sergio Ramos fékk vítaspyrnu í síðari hálfleik sem hann skoraði sjálfur úr. Gestirnir frá Madríd bættu öðru marki við í lokin og urðu lokatölur 1-3.

Lærisveinum Zidane voru ekki gefnar miklar líkur á að vinna viðureignina eftir slæmt gengi síðustu vikuna þar sem Real tapaði óvænt tveimur heimaleikjum í röð. Fyrra tapið var gegn Cadiz, nýliðum í spænsku deildinni, og það seinna gegn Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni.

Zidane segir sigurinn gegn Barcelona hafa verið sérstaklega sætan, hann hafi þaggað niður í ósanngjörnum gagnrýnisröddum að mati þjálfarans.

„Við áttum góðan leik, strákarnir sýndu mikla samheldni og verðskulduðu sigurinn. Ég er mjög stoltur af þeim og ég veit ekki hvort öll þessi gagnrýni sem þeir fengu í vikunni sé verðskulduð," sagði Zidane að leikslokum.

„Þetta eru bara þrjú stig sem við fengum en við munum njóta þeirra sérstaklega mikið í ljósi alls þess sem hefur verið sagt um okkur síðustu daga."

Sergio Ramos meiddist í tapinu gegn Cadiz og missti því af leiknum gegn Shakhtar og var sárt saknað.

„Hann er ótrúlega mikilvægur leikmaður fyrir félagið. Það er gríðarlega mikilvægt að hann sé í liðinu. Það jákvæða við daginn í dag er að við náðum í þrjú stig og að Sergio finnur ekki til."
Athugasemdir
banner
banner