Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 25. nóvember 2020 12:50
Elvar Geir Magnússon
Aga- og úrskurðarnefnd hafnar kröfum KR og Fram
Frá heimavelli KR.
Frá heimavelli KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr viðureign Leiknis og Fram.
Úr viðureign Leiknis og Fram.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur hafnað kröfum KR og Fram. Kröfurnar voru teknar til efnismeðferðar.

KR kærði þá ákvörðun stjórnar KSÍ að hætta keppni í Íslandsmótum og bikarkeppni og vildi að ákvörðunin yrði felld úr gildi.

KR var í baráttu um Evrópusæti en eftir ákvörðun stjórnar KSÍ er ljóst að KR-ingar verða ekki með í Evrópukeppni á næsta tímabili.

„Það er álit aga- og úrskurðarnefndar að fullnægjandi lagagrundvöllur sé fyrir setningu Covid reglugerðarinnar í lögum KSÍ," segir í úrskurði nefndarinnar.

„Það er álit aga- og úrskurðarnefndar að stjórn KSÍ hafi með setningu ofangreindrar reglugerðar [Covid-19 reglugerð] verið að bregðast við meiriháttar utanaðkomandi atburðum."

Fram markatölunni frá úrvalsdeildarsæti
Fram hafnaði í þriðja sæti Lengjudeildarinnar, liðið var með jafnmörg stig og Leiknir Reykjavík sem hafnaði í öðru sæti og komst upp í Pepsi Max-deildina. Leiknismenn komust upp á betri markatölu.

Kæra Fram byggðist á því að í Covid-19 reglugerðinni er ekkert sagt til um hvernig skera eigi á milli liða sem hafa sama meðalstigafjölda.

„Samkvæmt reglugerð KSÍ um knattspyrnumót eru ákvæði í 21. gr. um stigakeppni. Samkvæmt 21.3 segir að sigurvegari í stigakeppni sé það lið sem flest stig hlýtur og í 2. sæti er það lið sem hlýtur næst flest stig o.s.frv. Síðan segir að röð liða í stigakeppni ákvarðast nánar samkvæmt a) Fjölda stiga. b) Markamismunur. c) Fjöldi skoraðra marka, o.s.frv.," segir í úrskurði nefndarinnar.

Leiknir var með betri markatölu, fleiri skoruð mörk og með betri árangur í innbyrðis viðureignum gegn Fram í deildinni í sumar.

„Það er álit aga- og úrskurðarnefndar að ekkert mæli því gegn í þessu máli að stjórn KSÍ beiti ákvæði 21. gr. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót þegar svo háttar til að tvö lið standa jöfn að stigum til þess að skera úr um endanlega röðun liðanna í stigakeppni á grundvelli markatölu. Samkvæmt þessu var stjórn KSÍ bæði rétt og skylt að leysa úr þeirri stöðu sem upp var komin með þessum hætti."

Frestur málsaðila til að áfrýja máli til áfrýjunardómstóls KSÍ eru þrír dagar frá því að úrskurður aga- og úrskurðarnefndar er kveðinn upp.
Athugasemdir
banner
banner