banner
   þri 26. mars 2019 16:58
Ívan Guðjón Baldursson
Pogrebnyak: Hlægilegt að sjá svartan mann spila fyrir Rússland
Mynd: Getty Images
Rússneski framherjinn Pavel Pogrebnyak hefur verið mikið í fjölmiðlum í Rússlandi fyrir fáránlega framkomu sína en hann toppaði sjálfan sig á dögunum með fordómafullum ummælum.

Rússneska knattspyrnusambandið sektaði hann um 3000 pund og setti hann í skilorðsbundið leikbann út tímabilið, ef hann gerist aftur sekur um fordómafull ummæli fer hann í bann.

Mikil umræða er í gangi í Rússlandi um knattspyrnumenn sem eru með tvöfalt ríkisfang og gætu því spilað fyrir rússneska landsliðið. Ekki eru allir ánægðir með þá hugmynd og er Pogrebnyak, sem á 33 leiki að baki fyrir Rússland, þar á meðal.

„Ég skil ekki tilganginn með þessu. Ég skil ekki hvers vegna Ari (sóknarmaður Krasnodar) fékk rússneskt vegabréf til að byrja með. Það er hlægilegt að sjá svartan mann spila fyrir rússneska landsliðið," sagði Pogrebnyak í viðtali við Komsomolskaya Pravda í síðustu viku.

„Mario Fernandes er topp leikmaður en við erum með Igor Smolnikov í sömu stöðu. Við getum alveg spilað án útlendinga."

Pogrebnyak er 35 ára gamall og gerði fína hluti með Fulham og Reading í enska boltanum á árunum 2012 til 2015. Hann segist ekkert hafa gegn svörtum knattspyrnumönnum.

„Í viðtalinu deildi ég minni persónulegu skoðun að í rússneska landsliðinu ættu bara að vera leikmenn sem eru fæddir og uppaldir í Rússlandi. Ég ætlaði mér ekki að móðga neinn," sagði Pogrebnyak eftir að hafa verið sektaður.
Athugasemdir
banner
banner