banner
   þri 26. mars 2019 22:04
Brynjar Ingi Erluson
Undankeppni EM: Dramatík í Noregi - Danir með ótrúlega endurkomu
Ola Kamara skoraði jöfnunarmark Noregs gegn Svíþjóð
Ola Kamara skoraði jöfnunarmark Noregs gegn Svíþjóð
Mynd: Getty Images
Fabio Quagliarella skoraði tvö, Marco Verratti eitt og Moise Kean eitt
Fabio Quagliarella skoraði tvö, Marco Verratti eitt og Moise Kean eitt
Mynd: Getty Images
Átta leikir fóru fram í undankeppni Evrópumótsins í kvöld en tveir leikir enduðu með 3-3 jafntefli. Það var hádramatík í leik Noregs og Svíþjóðar og sömu sögu má segja af leik Sviss og Danmerkur.

Í D-riðli gerðu Sviss og Danmörk magnað 3-3 jafntefli. Sviss komst þremur mörkum yfir í leiknum með mörkum frá Remo Freuler, Granit Xhaka og Breel Embolo. Síðasta mark Sviss kom á 76. mínútu og nánast frágengið að liðið myndi taka þrjú stig.

Danir sýndu mikinn karakter. Mathias Jörgensen minnkaði muninn á 84. mínútu áður en Christian Gytkjær náði aðeins að klóra í bakkann. Það bjóst þó enginn við því að Henrik Dalsgaard myndi jafna metin í uppbótartíma og ótrúleg endurkoma Danmerkur staðfest.

Þetta var fyrsta stig danska liðsins í undankeppninni á meðan Sviss er með fjögur stig. Á meðan tókst Írum að vinna Georgíu 1-0 með marki frá Conor Hourihane og írska liðið því á toppnum með 6 stig.

Í F-riðli unnu Spánverjar lið Möltu með tveimur mörkum gegn engu þar sem Alvaro Morata, framherji Atlético Madrid, gerði bæði mörkin, en hann er í láni frá Chelsea og hefur heldur betur fundið markaskóna síðan hann kom í janúar.

Rúmenía vann Færeyjar 4-1 og þá var líf og fjör í leik Noregs og Svíþjóðar í Osló. Björn Johnsen og Joshua King komu Norðmönnum í 2-0 áður en Andreas Granqvist misnotaði víti fyrir Svía. Það kom ekki að sök og tókst Victor Claesson að minnka muninn áður en Havardt Nordtveit, leikmaður Hoffenheim, skoraði í eigið net.

Robin Quaison kom Svíum þá yfir í uppbótartíma og Svíar nánast byrjaðir að fagna sigrinum. Það var hins vegar á sjöundu mínútu í uppbótartíma er Ola Kamara jafnaði metin og tryggði norska liðinu stig.

Spánverjar eru með 6 stig í efsta sæti, Svíar með 4 stig í öðru sæti en Noregur aðeins með 1 stig.

Í J-riðli var nóg af mörkum. Ítalía vann Lichtenstein 6-0 þar sem Fabio Quagliarella gerði elsti markaskorari ítalska landsliðsins frá upphafi og hann fagnaði því með því að bæta við öðru marki. Þá skoruðu þeir Stefano Sensi, Marco Verratti, Moise Kean og Leonardo Pavoletti allir fyrir Ítalíu.

Helgi Kolviðsson, fyrrum aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, er þjálfari Lichtenstein.

Bosnía og Herzegóvína og Grikkland gerðu 2-2 jafntefli þar sem Miralem Pjanic var skúrkurinn. Bosnía var 2-0 yfir eftir mörk frá Edin Visca og Pjanic sjálfum. Grikkir minnkuðu muninn, Pjanic fékk beint rautt spjald fyrir heimskulegt brot og þá tókst gestunum að jafna undir lokin.

Finnland vann þá Armeníu 2-0 þar sem Pyry Soiri skoraði fyrir Finnland en hann komst í fréttirnar hér á Íslandi er hann hjálpaði Íslendingum að komast á HM í Rússlandi með því að jafna gegn Króötum undir lok leiks í undankeppni HM.

Úrslit og markaskorarar:

Sviss 3 - 3 Danmörk
1-0 Remo Freuler ('19 )
2-0 Granit Xhaka ('66 )
3-0 Breel Embolo ('76 )
3-1 Mathias Jorgensen ('84 )
3-2 Christian Gytkjaer ('88 )
3-3 Henrik Dalsgaard ('90 )

Írland 1 - 0 Georgía
1-0 Conor Hourihane ('36 )

Rúmenía 4 - 1 Færeyjar
1-0 Ciprian Deac ('26 )
2-0 Claudiu Keseru ('29 )
3-0 Claudiu Keseru ('33 )
3-1 Johan Troest Davidsen ('40 , víti)
4-1 George Puscas ('63 )

Noregur 3 - 3 Svíþjóð
1-0 Bjorn Johnsen ('41 )
2-0 Joshua King ('52 )
2-1 Viktor Claesson ('70 )
2-1 Andreas Granqvist ('70 , Misnotað víti)
2-2 Robin Quaison ('86 )
2-3 Robin Quaison ('90 )
3-3 Ola Kamara ('90 )

Malta 0 - 2 Spánn
0-1 Alvaro Morata ('31 )
0-2 Alvaro Morata ('73 )

Armenía 0 - 2 Finnland
0-1 Fredrik Jensen ('14 )
0-2 Pyry Soiri ('78 )

Ítalía 6 - 0 Lichtenstein
1-0 Stefano Sensi ('17 )
2-0 Marco Verratti ('32 )
3-0 Fabio Quagliarella ('35, víti )
4-0 Fabio Quagliarella ('43, víti )
5-0 Moise Kean ('70 )
6-0 Leonardo Pavoletti ('76 )
Rautt spjald: Daniel Kaufmann ('45, Lichtenstein)

Bosnía og Herzegóvína 2 - 2 Grikkland
1-0 Edin Visca ('10 )
2-0 Miralem Pjanic ('15 )
2-1 Konstantinos Fourtounis ('64 )
2-2 Dimitris Kolovos ('85 )
Rautt spjald: Miralem Pjanic ('65, Bosnía og Herzegóvína)
Athugasemdir
banner
banner
banner