Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 26. mars 2021 14:45
Fótbolti.net
„Ef þetta væri krakkamót hefði maður skilið þetta betur"
Icelandair
Frá æfingu U21 landsliðsins.
Frá æfingu U21 landsliðsins.
Mynd: Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Haraldur Árni Hróðmarsson var í þættinum.
Haraldur Árni Hróðmarsson var í þættinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Róbert Orri Þorkelsson.
Róbert Orri Þorkelsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við vorum í brasi varnarlega frá fyrstu mínútu og þeir komust í fullt af stöðum sem hefðu getað endað með marki áður en þeir fengu vítið og komust loks yfir," segir Haraldur Árni Hróðmarsson, yfirþjálfari hjá Val.

Haraldur var gestur í hlaðvarpsþættinum Innkastið í gær en þar var fjallað um 4-1 tap Íslands gegn Rússlandi á Evrópumóti U21 landsliða. Fyrsta leik liðsins í riðlinum.

„Í fyrstu tveimur mörkunum gátu þeir spilað á milli lína og komist í góðar stöður í teignum á alltof auðveldan hátt," segir Magnús Már Einarsson í þættinum.

Vantaði annan djúpan miðjumann
„Mér fannst við vera sókndjarfir í uppstillingu fyrir þennan leik og við áttum ekki efni á því. Ég sá rússneska U21 landsliðið í fyrsta sinn í þessum leik en við áttum ekki séns í þetta lið," segir Haraldur.

„Við erum bara Ísland og ef þetta snýst um þróun leikmanna þá er það bara frábært að þeir fái að spila sína stöðu en ef við ætlum að fá eitthvað út úr leiknum þá verður að bæta við öðrum djúpum miðjumanni, kantmennirnir þurfa að bakka, miðjumennirnir hlaupa til baka og Sveinn Aron að djöflast frammi. Mér fannst eiginlega ekkert af þessu vera til staðar."

Haraldur segir að Alex Þór Hauksson hafi verið í yfirvinnu sem eini varnartengiliðurinn á miðjunni.

„Það var mikið á hann lagt. Mér fannst Willum og Stefán Teitur ekki nægilega góðir varnarlega, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Þeir voru betri í seinni. Það er gaman að horfa á Jón Dag, hann er skemmtilegur. Það eru margir góðir á boltann. Maður hefði viljað sjá Ísak meira inni í leiknum," segir Haraldur.

Ekki kjaftur sem hefði gert eitthvað fyrir A-landsliðið
Talað var um í Innkastinu að leikmenn Rússlands séu að spila á stærra sviði með sínum félagsliðum.

„Ef þú horfir á lið Rússa, þetta eru allt gaurar sem eru á mála hjá liðum í rússnesku úrvalsdeildinni. Það er hátt level miðað við okkar stráka. Okkar strákar eru að spila í Pepsi Max-deildinni og B-deildum á Norðurlöndunum, með fullri virðingu er þetta himinn og haf," segir Magnús.

Íslenska landsliðið sá ekki til sólar í leiknum, Rússar voru betri frá fyrstu mínútu. Okkar strákar gerðu sig seka um dýrkeypt mistök.

„Þetta er ekkert unglingalandslið. Meirihlutinn af þessum strákum eru 23 ára, fæddir 1998. Ef þetta væri krakkamót myndi maður skilja ýmislegt sem gerðist en þegar verið er að horfa á 23 ára atvinnumenn í fótbolta þá finnst mér þetta bara lélegt," segir Haraldur.

„Ég ætla ekki að láta eins og ég hafi verið heima hjá mér með andlitsmálninguna og halda að við myndum vinna þetta mót en ég bjóst við því að fleiri leikmenn myndu gera sig gildandi. Það er verið að tala um að hinir og þessir eigi að vera í A-landsliðinu. Miðað við frammistöðuna í þessum leik hefði ekki kjaftur í þessu U21 landsliði gert eitthvað fyrir A-landsliðið."

Var alls ekki verri en hver annar
Ísak Bergmann Jóhannesson (2003) og Róbert Orri Þorkelsson (2002) eru meðal yngstu leikmanna á mótinu. Mikil umræða hefur verið um Ísak í fjölmiðlum en hann komst ekki í takt við leikinn í gær.

„Hann er að spila með góðu liði í Svíþjóð. Það að fréttir komi tvisvar á dag að Juventus og Manchester United séu að horfa á hann jafngildir ekki því að hann sé á Juventus og Manchester United kaliberi. Hann á langt í land, þetta er ungur gæi og þetta snýst um hversu góður hann getur orðið. Það er það sama með Róbert Orra. Á samfélagsmiðlum voru menn eitthvað að hjóla í hann sem mér fannst óréttlátt. Það voru reynslumeiri menn í kringum hann. Mér fannst hann alls ekki verri en hver annar í liðinu," segir Haraldur.

Íslenska liðið er að öllum líkindum ekki á leið upp úr riðlinum.

„Mér finnst leiðinlegt að vera að hjóla í þessa stráka en þegar gullkynslóðin fór til Álaborgar fyrir tíu árum snérist þetta um að fá reynslu á stórmóti. Reynslan snýst líka um að spila fyrir framan áhorfendur en því miður er ekki hægt að biðja um það núna. Eina sem maður getur sagt kröfu um á þessu móti er að sjá framfarir og bætingu milli leikja. Það er kannski erfitt þegar andstæðingarnir eru erfiðari og erfiðari með hverjum deginum en þetta snýst um að koma þessum gaurum inn í alþjóðlegan fótbolta hraðar. Þeir munu vonandi margir hverjir taka við keflinu og spila fyrir A-landsliðið í framtíðinni," segir Haraldur.

Ísland mætir Danmörku á sunnudag en danska liðið gerði sér lítið fyrir í gær og vann Frakkland.
Innkastið - 1-7 tapdagur Íslands
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner