Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 26. mars 2021 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hefði verið auðveldasta skrefið að taka inn erlendan markvörð"
Tinna í leik með Gróttu.
Tinna í leik með Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tinna Brá Magnús­dótt­ir, sem hef­ur varið mark Gróttu síðustu tvö ár, mun verja mark Fylkis í sumar.

Tinna er fædd árið 2004 og hefur leikið alls 24 meistaraflokksleiki í deild og bikar með Gróttu, hún hef­ur leikið einn leik með U17 ára landsliði Íslands og þrjá með U15 ára landsliðinu.

Hún fær verðugt verkefni í sumar þar sem hún á að fylla í skarðið sem Cecilía Rán Rúnarsdóttir skilur eftir sig. Cecilía hefur verið einn allra besti markvörður Pepsi Max-deildarinnar þrátt fyrir ungan aldur en er núna farin í atvinnumennsku til Svíþjóðar.

„Mér finnst flott hjá Kjartani (þjálfara Fylkis) og þeim að taka Tinnu inn. Það hefði verið auðveldasta skrefið að taka bara erlendan markvörð," sagði Aníta Lísa Svansdóttir, þjálfari KR, í síðasta þætti af Heimavellinum.

„Þau eru að halda sig við sína stefnu og Tinna fær stórt hlutverk. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hún leysir þetta en það er líka rosalega gott að fá bara traustið. Þú ert þetta ung og þú mátt gera mistök."

„Það er flott að þær haldi sig við sín gildi," sagði Aníta Lísa jafnframt.

Hversu góð er Tinna? „Hún er algjör nagli og svo er hún stór, líkamlega sterk og góð í að spila út frá markinu. Hún hefur allt til að verða frábær markvörður og er mögulega orðin það núna; þarf bara að fá sviðsljósið."

„Eina sem maður setur kannski spurningamerki við er það hvernig vörnin verður fyrir framan hana af því að það vantar Berglindi? Cecilía hafði alltaf Berglindi en hverja getur Tinna treyst á fyrir framan sig?" sagði Lilja Dögg Valþórsdóttir en hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér að neðan.
Heimavöllurinn: Ótímabær spá fyrir Pepsi Max 2021
Athugasemdir
banner
banner
banner