Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 26. mars 2021 13:10
Fótbolti.net
„Í besta falli var undirbúningurinn fáránlegur"
Icelandair
Landsliðsmenn ganga svekktir af velli.
Landsliðsmenn ganga svekktir af velli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted og Manuel Neuer.
Alfons Sampsted og Manuel Neuer.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í Innkastinu var farið yfir 3-0 tap Íslands gegn Þýskalandi í undankeppni HM.

Sérstakur gestur í þættinum var Haraldur Árni Hróðmarsson, yfirþjálfari hjá Val.

Meðal annars var rætt um erfiðleikana á miðsvæðinu en Aron Einar Gunnarsson og Guðlaugur Victor Pálsson voru langt frá sínu besta. Aron spilar í Katar og tempómunurinn sást í gær.

„Hvorugur þeirra var svipur hjá sjón. Aron hefur margoft spilað betur í dag og var á köflum ráðvilltur eins og miðjan í heild. Hvað varðar sóknarleikinn þá verður þú stundum að ná að halda í boltann. Það var 61 sending sem Ísland sendi á milli sín í fyrri hálfleik og það er rosalega erfitt að standa í vörn gegn svona góðu liði en ná ekkert að tengja sendingar, fá aukaspyrnur og ná aðeins að anda," segir Magnús Más Einarsson.

„Þú getur verið með plön um það hvað þú ætlar að gera þegar þú vinnur boltann en þau duga lítið þegar þú vinnur ekkert boltann. Nema þegar þú sækir boltann úr markinu eða tekur útspörk," bætir Haraldur við.

Vont að fá Þjóðverja í andlitið í þessum ham
Þjóðverjar fengu skell í síðasta landsleikjaglugga og það var ekki jákvætt að fá þá særða í leikinn gegn Íslandi.

„Þjóðverjar töpuðu 6-1 fyrir Spánverjum í nóvember og það er oft talað um að þú viljir fá leik strax eftir svona slæmt tap. Þeir eru búnir að bíða lengi eftir því að geta kvittað fyrir þann skell. Þetta var stærsta tap Þjóðverja í 89 ár og þeir voru að sjálfsögðu að fara að mæta sturlaðir til leiks. Það var ekki gott fyrir Íslendinga að fá Þjóðverja í andlitið í þessum ham," segir Magnús.

„Við vorum að spila gegn Þýskalandi á útivelli og höfðum aldrei neinu að tapa. Þess vegna er svo svekkjandi að vera svona passífir og vera svo bara jarðaðir. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en við hefðum átt að vera aggressívari," segir Haraldur.

Er bara fíflagangur
Fyrir leik greindi 433.is frá því að KSÍ hefði komist að því daginn fyrir leik að Birkir Már Sævarsson væri í leikbanni og gæti ekki spilað. Sagt var að planið hefði verið að hann hefði átt að byrja leikinn en Alfons Sampsted kom inn í staðinn.

„Þetta er bara fíflagangur, það er bara þannig. Þú veist hverjir eru löglegir í þessa leikja. Alfons átti ekki sérstakan leik í dag. Hann er framtíðarmaður í þessu liði og það er ekkert spes að fá þessa þýsku leikmenn á sig. Það er ekki draumastaða fyrir hann að fá þessa eldskírn og vita ekki af því fyrr en rétt fyrir leik," segir Haraldur.

Alfons átti í erfiðleikum gegn öflugum leikmönnum Þýskalands en Haraldur vitnar í punkt sem Jóhannes Karl Guðjónsson kom með í umfjöllun RÚV.

„Jói Kalli talaði um það fyrir leik að Alfons er að spila fyrir yfirburðarlið í Noregi (Bodö/Glimt) og hefur varla farið afturfyrir miðju í heilt ár. Svo kemur hann inn í þetta. Það var góður punktur."

Haraldur talar einnig um að aðdragandinn að leiknum hafi verið furðulegur og óvissan ekki hjálpað leikmönnum og þjálfurum.

„Við megum ekki gleyma því að um morguninn var óvíst hvort leikurinn færi fram. Í besta falli hefur undirbúningurinn verið fáránlegur þó ég tali ekki um það sem afsökun. Kórónusmit í þýska liðinu og svo þetta með Birki Má. Þetta hefur verið undarlegur undirbúningur fyrir nýja landsliðsþjálfara," segir Haraldur.

„Svo fá þeir ansi stuttan tíma til að undirbúa sig og koma inn með sínar áherslur," segir Magnús.

Við bara verðum að vinna
Ísland á tvo leiki framundan í riðlinum, báðir á útivöllum. Á sunnudag er leikið gegn Armeníu og á miðvikudaginn gegn Liechtenstein. Ísland verður að fá sex stig úr þessum leikjum.

„Það er gríðarlega mikilvægur leikur á sunnudag. Það þýðir ekkert að dvelja við þennan Þjóðverjaleik. Hendum honum bara út um gluggann og einblínum á Armeníu því þar þurfa að koma þrjú stig. Armenar eru komnir á blað, í versta falli getur Armenía verið með sex stig á sunnudagskvöld og Ísland núll. Við bara verðum að vinna þennan leik," segir Magnús.

Getum við gengið að því vísu að vinna á sunnudag?

„Ef við værum með alla okkar hesta klára en það vantar slatta í liðið og þetta verður erfiður leikur á sunnudag. Það kæmi manni á óvart ef við myndum ekki vinna, ég hef það mikla trú á þessu liði og það er svo öflugt í mótsleikjum. En það er ekkert gefins held ég," segir Haraldur.
Innkastið - 1-7 tapdagur Íslands
Athugasemdir
banner
banner
banner