banner
   fös 26. mars 2021 22:30
Brynjar Ingi Erluson
Skallaði veggi og drakk til að gleyma
Roy Carroll hefur gengið í gegnum dimma dali en er á batavegi
Roy Carroll hefur gengið í gegnum dimma dali en er á batavegi
Mynd: Getty Images
Hann segir að leikmenn eigi erfitt með að tjá sig í dag og að yfirleitt gerist það ekki fyrr en eftir ferilinn
Hann segir að leikmenn eigi erfitt með að tjá sig í dag og að yfirleitt gerist það ekki fyrr en eftir ferilinn
Mynd: Getty Images
Roy Carroll, fyrrum markvörður Manchester United og norður-írska landsliðsins, opnar sig um alkahólisma og þunglyndi í viðtali við Daily Mail en hann gekk í gegnum mikla erfiðleika á ferlinum.

Carroll hefur átt langan og nokkuð farsælan feril. Hann hefur spilað með liðum á borð við Man Utd, West Ham, Wigan, Derby, Rangers, Olympiakos og OB en í dag spilar hann í norður-írsku úrvalsdeildinni með Dungannon Swifts.

Hann spilaði þá 45 landsleiki fyrir Norður-Írland en hann hefur glímt við alkahólisma og þunglyndi frá 2006. Hann er í dag edrú og hefur verið að vinna í sínum málum en hann opnaði sig um hlutina við Daily Mail.

Hann varð fyrst var við vandamálið er hann var á mála hjá West Ham og meiddist í baki.

„Ég hafði aldrei meiðst alvarlega á ferlinum en hægt og rólega var ég að sökkva í djúpa holu og ég var ekki andlega tilbúinn í það," sagði Carroll.

„Ég var í dimmu herbergi og drakk mikið. Ég fékk enga hjálp að utan. Það vissi enginn hvað var að mér því ég opnaði mig aldrei með þetta."

„Það héldu allir að ég væri glaðlyndasti náungi heims en ég fór svo heim, lokaði á eftir mér og skallaði veggina heima áður en ég fékk mér nokkra drykki og reyndi að gleyma."

„Ég var að reyna að losa mig við þunglyndið. Ég átti nóg af áfengi og reyndi bara að gleyma þessu. Daginn eftir varð þetta verra og maður byrjar aftur að drekka en þetta virkar ekki. Ég fór í meðferð því aðrir fóru fram á það. Konan mín, umboðsmaðurinn og vinir mínir vildu það. Mér fannst ekkert að því sem ég var að gera og það var stærsta vandamálið."

„Þegar ég var samningsbundinn þá var ég fastur á því að drekka ekki daginn fyrir leik en þegar ég hætti að spila og ekkert lið vildi mig þá drakk ég daglega. Ég var með mikinn frítíma og drykkjan var komin vel fram yfir öll velsæmismörk. Ef ég hefði ekki hætt þá væri ég ekki hér í dag. Ég held að líkaminn minn hefði ekki þolað meira."

„Ég var aldrei á þeim stað þar sem ég hefði drepið mig. Ég var mjög heppinn að þetta var ekki komið á það stig en ég hefði dáið af drykkjunni. Miðað við það sem ég var að drekka og hvernig ég drakk það þá hefði ég ekki vaknað einn morguninn. Í dag er mér alveg sama um áfengi en fyrstu fjögur eða fimm árin voru mjög erfið."

„Ég þarf þetta ekki í dag enda er ég alveg nógu klikkaður fyrir en þunglyndið kemur í bylgjum. Ég held ég losni aldrei við það. Það eru margir fótboltamenn að ganga í gegnum svipaða erfiðleika en tjá sig ekki um þetta og munu ekki segja neitt fyrr en þeir leggja skóna á hilluna,"
sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner