sun 26. apríl 2020 23:38
Brynjar Ingi Erluson
Fer Koulibaly til Newcastle?
Kalidou Koulibaly er eftirsóttur
Kalidou Koulibaly er eftirsóttur
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle ætlar að eyða peningum í sumar en félagið er í viðræðum við Kalidou Koulibaly, varnarmann Napoli. Þetta kemur fram á Footmercato.

Fjárfestar frá Sádi-Arabíu eru að ganga frá kaupum á Newcastle en krónprinsinn Mohammad Bin Salman er á bakvið kaupin.

Nýju eigendurnir ætla að spreða peningum í sumar og er félagið þegar orðað við marga öfluga leikmenn en einn þeirra er Koulibaly hjá Napoli.

Hann er einn öflugasti varnarmaður Evrópu um þessar mundir en samkvæmt Footmercato er Newcastle þegar í viðræðum við Napoli um kaup á honum.

Verðmiðinn á Koulibaly er nokkuð hár en Newcastle þyrfti að greiða 70 milljónir punda fyrir hann. Aurelio De Laurentiis, forseti Napoli, hefur áður sagt að hann sé opinn fyrir því að selja Koulibaly en þó fyrir rétt verð.

Edinson Cavani, framherji Paris Saint-Germain, hefur þá verið orðaður við Newcastle en samningur hans rennur út í sumar. Þá er franski sóknartengiliðurinn Nabil Fekir einnig á óskalista félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner